Samstarf uppsjávarútgerða og Hafrannsóknastofnunar varðandi loðnurannsóknir hefur verið mjög gott undanfarin ár. Samstarfið snýst um framkvæmd loðnumælinga og það er alveg ljóst að þetta samstarf hefur skilað góðum árangri undanfarin ár. Það má færa rök fyrir því að við hefðum farið á mis við loðnurvertíðir og alla þá verðmætasköpun sem þeim fylgir, með ómældu tekjutapi fyrir þjóðarbúið, ef ekki hefði komið til þetta samstarf. Samstarfið er vissulega hagur allra.
Stjórnvöld samþykktu á árinu 2015 nýja aflareglu fyrir loðnu sem nú hefur verið notuð í nokkur ár við úthlutun aflamarks. Eldri aflareglan sem hafði verið notuð við veiðistýringu á loðnu frá árinu 1979 var samkvæmt mati fiskifræðinga frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) ekki talin standast varúðarnálgun þrátt fyrir að búið væri að notast við hana í hátt í 40 ár, en hún gekk í grunninn út á punktmat í mælingu og að skilin væru eftir 400 þúsund tonn til hrygningar.
Með nýrri aflareglu sem tekin var upp árið 2015 er tekið tillit til þátta sem ekki var gert með sama hætti áður. Þeir eru óvissa í bergmálsmælingum ásamt afráni á loðnu frá mælingu að hrygningu og er reglunni ætlað að tryggja með 95% vissu að hrygningarstofninn fari ekki undir 150 þúsund tonn.
Með þessari nýju aflareglu var strax ljóst að stórauka þyrfti fjármagn til loðnurannsókna. Þær rannsóknir þurfa að snúa annarsvegar að loðnustofninum og hins vegar að því afráni sem metið er á stofninum. Hafrannsóknastofnun hefur verið fjársvelt undanfarin ár og ekki hefur fylgt með fjármagn til að mæta þörf fyrir auknar rannsóknir. Núverandi ráðherra jók fjármagn til loðnurannsókna um 150 milljónir króna á næsta ári sem er jákvætt og er það í fyrsta skipti í mörg ár sem málinu er sýndur skilningur.
Það er ljóst að samstillt átak útgerða og Hafrannsóknastofnunar þarf til að ná utan um þessar mælingar. Útgerðir hafa leitast við að koma upp mælibúnaði í sínum skipum sambærilegum þeim búnaði sem skip Hafrannsóknastofnunar eru með til að nýta megi þau til mælinga. Hafrannsóknastofnum kvarðar mælana og er með vísindafólk um borð í fiskiskipunum við mælingar.
Núna er í undirbúningi rannsóknarleiðangur í janúar þar sem 2-4 fiskiskip munu taka þátt í loðnumælingum ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Menn munu vakta veðurspár og fara af stað þegar aðstæður leyfa.
Verkefnið vegna komandi vertíðar hófst í desember með leiðangri sem Heimaey VE fór í, og varð þá vart við töluvert af loðnu á hefðbundnum slóðum norður af Húnaflóa og út af Vestfjörðum. Auk þess hefur borist töluvert af loðnufréttum frá togurum bæði af Digranesflaki og Vestfjarðamiðum.
Í síðustu viku voru Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK kvarðaðir og eru þar með tilbúnir til að hefja loðnuleit eftir hátíðar. Í kvörðuninni felst að fiskileitartæki skipanna eru stillt þannig að vitað er hve endurvarpið sem þau sýna er sterkt. Allir mælar skipa, sem taka þátt í loðnuleitinni, þurfa að vera stilltir eins þannig að mælingar skipanna séu fullkomlega sambærilegar. Tveir menn frá Hafrannsóknastofnun komu austur til að kvarða skipin og tók kvörðunin samtals 3 daga þar sem ekki var, vegna veðurs, hægt að ljúka kvörðun á tveimur dögum eins og til stóð. Það tók drjúgan hluta úr degi að kvarða hvort skip og var tignarlegt að sjá þau á úti á Norðfirði skrýdd jólaljósum á meðan mælarnir voru stilltir. Nú er ráðgert að Börkur ásamt Aðalsteini Jónssyni SU haldi til loðnuleitar fljótlega á nýju ári.
Undanfarið ár hafa loðnuveiðar jafnan verið í mikilli óvissu þar sem mælingar að hausti hafa ekki skilað miklum árangri. Leiðangurinn hjá Heimaey fyllir okkur bjartsýni fyrir komandi vertíð og þannig förum við inní áramótin og tökum á móti nýju ári. Við erum þess fullviss að með samstilltu átaki útgerða og Hafrannsóknastofnunar muni okkur takast að mæla nægjanlegt magn af loðnu til að hægt verði að gefa út góðan kvóta og þannig skapa verðmæti fyrir land og þjóð.