Skipin sem munu landa makríl hjá Síldarvinnslunni á vertíðinni sem nú er að hefjast munu hafa samstarf um veiðarnar rétt eins og í fyrra. Um er að ræða fjögur skip; Beiti NK, Börk NK, Bjarna Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Samstarfið felst í því að afla skipanna er hverju sinni dælt um borð í eitt skip sem flytur hann að landi og skiptast skipin á um að taka aflann um borð. Þetta fyrirkomulag hefur umtalsverða kosti og má til dæmis nefna að minni frátafir verða frá veiðum, þar sem hvert skip þarf síður að sigla langan veg með aflann. Þá stuðlar þetta fyrirkomulag að því að aflinn komi ávallt sem ferskastur til vinnslu. Einkum er gert ráð fyrir að samstarf skipanna verði við lýði á meðan veiði er treg en vart er ástæða til slíks samstarfs í mikilli veiði.

Þetta samstarf var fyrst reynt á síðustu vertíð og þótti takast vel.

Beitir, Börkur og Vilhelm Þorsteinsson héldu til makrílveiða í fyrrinótt en Bjarni Ólafsson er í slipp og mun hefja veiðar síðar. Í morgun voru skipin að veiðum í Rósagarðinum. Heimasíðan ræddi við Leif Þormóðsson stýrimann á Berki, en afla skipanna er núna safnað um borð í Börk. „Héðan er lítið að frétta en það er þó örlítið kropp. Það eru komin um borð um 160 tonn og makríllinn er stór og fallegur. Í fyrsta holinu okkar var örlítil síld en þetta hefur mestmegnis verið hreinn makríll. Skipin þrjú hafa verið að hífa um 40 tonn þannig að þetta er mjög rólegt, en þetta er bara byrjunin og á vonandi eftir að batna fljótlega,“ segir Leifur.