Börkur NK að dæla makrílafla í Beiti NK á miðunum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Nú er nýlega lokið óvenjulegri makrílvertíð sé miðað við síðustu ár. Makríllinn breytti göngum sínum og gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt inn í grænlenska lögsögu eins og hann hefur gert að undanförnu. Þess í stað hélt hann sig lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem þekkt er undir nafninu Síldarsmugan. Makrílskipin þurftu því að sækja aflann langt og meira var haft fyrir veiðunum en á undanförnum árum. 

Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum var myndað einskonar veiðifélag þeirra skipa sem lönduðu makríl til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin sem um ræðir voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Samstarf skipanna byggðist á því að hverju sinni var afla þeirra allra dælt um borð í eitt skip sem síðan flutti hann til vinnslu í landi. Skiptust skipin á um að taka aflann um borð. Álitið var að þetta væri skynsamlegt fyrirkomulag þegar jafn langt væri að sækja aflann og raun bar vitni. Hér er um nýjung að ræða og því kann að vera forvitnilegt að heyra viðhorf skipstjóra á umræddum skipum til samstarfsins. 

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að samstarf skipanna á makrílvertíðinni hefði gengið afar vel að sínu mati: „Við þær aðstæður sem ríktu á nýliðinni makrílvertíð var samstarf skipanna góð ráðstöfun og ég held svei mér þá að allir sem tóku þátt í því séu sáttir. Staðreyndin er sú að þetta samstarf var hagkvæmt fyrir alla, bæði veiðiskip og vinnslu. Auðvitað voru það ákveðnar aðstæður sem knúðu á um samstarfið. Þar má nefna að miðin voru fjarlæg og siglingin þangað og þaðan tók  sólarhring eða meira. Veiðin var stundum ekki alltof mikil þannig að skynsamlegt var að setja allan afla skipanna um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hæfilegt magn að landi fyrir vinnsluna. Þetta kom í veg fyrir að skipin væru að sigla með smáslatta í land og skipulagið kom einnig í veg fyrir löndunarbið, en öllu máli skiptir að hráefnið sé sem ferskast þegar það er tekið til vinnslu. Það var regla á veiðunum og ákveðin stýring til að skipulagið gengi sem best upp. Þegar síðan brast á með mikilli veiði þá voru skipin send með þann afla sem ekki var unnt að vinna í Neskaupstað til Færeyja eða Noregs. Þannig var reynt að tryggja að kvótinn sem til ráðstöfunar var næðist. Þetta gekk einnig ágætlega að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að þetta samstarf hafi verið mjög athyglisvert og lærdómsríkt og ég tel að við ákveðnar aðstæður mætti einnig reyna það við síldveiðar og jafnvel loðnuveiðar þegar þær hefjast á ný,“ segir Tómas. 

Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni. telur að það hafi verið mjög skynsamlegt að efna til veiðisamstarfsins á nýliðinni makrílvertíð. „Ég tel að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun og ég held að það sé skoðun allrar áhafnarinnar. Aðstæðurnar á makrílvertíðinni kölluðu í reynd á breytt fyrirkomulag vegna þess hve langt var að sækja makrílinn og hve mikilvægt var að koma hráefninu nýju og fersku til vinnslu. Þegar síðan mikið veiddist og fiskiðjuverið í Neskaupstað hafði ekki undan voru skipin látin landa erlendis. Engu máli skipti þó eitthvert skipanna í samstarfinu fengi hærra verð fyrir aflann í Noregi eða Færeyjum því áhafnir allra skipanna nutu þess jafnt. Veiðinni var annars stýrt þannig að sem mestur afli færi í gegnum fiskiðjuverið í Neskaupstað og hráefnið væri sem best þegar það kæmi þar til vinnslu. Niðurstaða mín er sú að þetta samstarf hafi tekist afar vel og almenn ánægja ríki með það,“ segir Runólfur.

Mestu máli skiptir að aflinn komi sem ferskastur til vinnslu. Ljósm. Hákon Ernuson

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Margréti, tekur undir með þeim Tómasi og Runólfi. „Mér fannst þetta veiðisamstarf koma afar vel út og mér fannst gaman að taka þátt í því. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að endurtaka, ég tala nú ekki um ef aðstæður verða svipaðar og voru á nýliðinni makrílvertíð. Með samstarfinu er verið að hámarka gæði aflans og tryggja vinnslunni stöðugt hráefni og það er einfaldlega það sem skiptir mestu máli. Ég heyri ekki betur en áhöfnin hafi verið afar kát með samstarfið – það kom vel út bæði fyrir skipin og vinnsluna og ég gæti þess vegna trúað því að þetta sé komið til að vera,“ segir Guðmundur. 

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, er sammála skipstjórunum á hinum skipunum í samstarfinu. „Samstarfið tókst afskaplega vel að mínu mati. Það var jákvætt bæði fyrir áhafnir skipanna og fyrirtækið í heild sinni. Komið var með góðan og ferskan afla að landi, vinnslunni haldið gangandi og með samstarfinu var unnt að veiða meira en ella. Fullvíst er að við hefðum aldrei náð þeim afla sem við náðum án samstarfsins. Í ljósi þessa er það ekki skrítið að áhöfnin á Berki hafi verið mjög sátt við þetta fyrirkomulag eftir því sem ég veit best. Það kæmi mér ekki á óvart að samstarf af þessu tagi verði endurtekið þegar uppi eru svipaðar aðstæður og voru á makrílvertíðinni sem var að ljúka,“ segir Hálfdan.

Miklum meirihluta afla skipanna í samstarfinu, eða tæplega 29 þúsund tonnum, var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og þar gekk vinnsla vel. Alls lönduðu skipin níu sinnum erlendis en það var fyrst og fremst gert til að ná þeim kvóta sem var til ráðstöfunar. Samtals lönduðu skipin fjögur 41 sinni á vertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af umræddu veiðisamstarfi. Alls veiddu skipin 38.500 tonn af makríl á vertíðinni auk 4.600 tonna af síld sem fékkst sem meðafli. Heildarerðmæti aflans var um þrír milljarðar króna.