Á opnunarhátíð sjávarútvegssýningarinnar Sjávarútvegur 2022 í Laugardalshöll í gær veittu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi Síldarvinnslunni viðurkenningu fyrir samfélagsverkefni og umhverfisvernd. Það var Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sem afhenti Gunnþóri B. Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, viðurkenningargripinn. Í umsögn sem fylgdi viðurkenningunni kom meðal annars eftirfarandi fram:
Vart þarf að fara mörgum orðum um hlutverk Síldarvinnslunnar í heimabyggð og hvar sem hún er að störfum. Síldarvinnslan er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hornsteinn í héraði, traustur og öruggur vinnustaður og starfsmenn hennar hafa lagt sig í framkróka um að ganga vel og af virðingu um auðlindir sjávar. Síldarvinnslan hefur nú verið skráð á opin hlutabréfamarkað og þar með eru allar upplýsingar um rekstur og afkomu fyrirtækisins opinberar. Lífeyrissjóðir hafa sýnt fyrirtækinu traust og fjárfest umtalsvert í því. Meðal stærstu hluthafa eru 9 lífeyrissjóðir.
Síldarvinnslan er aðili að samfélagsstefnu sjávarútvegs og hefur gefið út samfélagsskýrslu undanfarin þrjú ár. Meginumfjöllunarefni þeirra snýst um ófjárhagslega þætti starfseminnar. Á vettvangi umhverfismála hefur Síldarvinnslan látið til sín taka. Má nefna að fyrirtækið hefur leitað leiða til að kolefnisjafna sig, meðal annars með kaupum á jörð til skógræktar. Þá hefur fyrirtækið sett upp búnað sem gerir skipum félagsins kleift að tengjast landrafmagni sem nýtist allri starfsemi skipsins í höfn.