„Hér eru menn að gera allt klárt fyrir loðnuvertíð og sannfærðir um að það verði vertíð,“ segir Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Geir segir að nú sé verið að undirbúa vertíðina af fullum krafti. „Það er verið að þrífa allt hátt og lágt og vinna að hefðbundnum lagfæringum sem ávallt þarf að sinna á milli vertíða. Á loðnuvertíð starfa um 50 manns í fiskiðjuverinu en það er unnið á vöktum allan sólarhringinn. Loðnuvertíðin er alltaf skemmtilegur tími en í reyndinni hefur hver vertíð sinn sjarma. Í ár er ekki gert ráð fyrir mikilli hrognaframleiðslu enda var mikið framleitt af loðnuhrognumá síðustu vertíð. Fastafólkið okkar verður allt komið til starfa um miðjan janúar en það hefur ekki verið kallað á vertíðarfólkið ennþá. Menn þurfa að hafa eitthvað fast í hendi áður en það er boðað til starfa. Nú hefst loðnuleit á næstu dögum og hér bíða allir spenntir, en jafnframt bjartsýnir,“ segir Geir Sigurpáll.