Síldarvinnslan er þessa dagana að kynna nýjan sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Sáttmálanum fylgir uppfærð stefna og viðbragðsáætlun sem fylgja skal þegar slík mál koma upp. Sigurður Ólafsson, verkefnisstjóri á starfsmannasviði, segir mikilvægt að þessi mál séu tekin alvarlega. „Tímarnir eru að breytast og þá er eini raunhæfi kosturinn að aðlagast þeim. Árið 2015 voru lagalegar kröfur til fyrirtækja um uppbyggileg samskipti á vinnustað skýrðar og hertar verulega. #Metoo-umræðan sýnir svo svart á hvítu að það var ekki vanþörf á. Það er ennþá alltof algengt að það viðgangist óeðlilegir hlutir í samskiptum fólks á vinnustöðum. Í dag er einfaldlega gerð krafa um að samskipti á vinnustað séu yfirveguð, fagleg og uppbyggileg. Við eigum að sýna hvert öðru virðingu og það á enginn að þurfa að búa við neinskonar ógn í samskiptum á vinnustaðnum. Síldarvinnslan hefur tekið skýra stefnu um að líða ekki slík samskipti og ég tel að það sé afar jákvætt fyrir okkur öll,“ sagði Sigurður.
 
Sáttmálinn er gefinn út prentaður á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Auk þess verður hann aðgengilegur á heimasíðu fyrirtækisins. Sáttmálanum verður dreift á alla vinnustaði Síldarvinnslunnar á næstu dögum og efni hans kynnt fyrir starfsfólki.