Beitir NK, hið nýja skip Síldarvinnslunnar á loðnumiðunum. Skipið reyndist frábærlega vel á vertíðinni. Ljósm: Hilmar KárasonBeitir NK, hið nýja skip Síldarvinnslunnar á loðnumiðunum. Skipið reyndist frábærlega vel á vertíðinni. Ljósm: Hilmar KárasonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi verið sérkennileg að ýmsu leyti. Einungis um 100 þúsund tonn komu í hlut íslenskra skipa á vertíðinni af þeim 173 þúsund tonna kvóta sem gefinn var út. Vegna hins takmarkaða kvóta hófu íslensk skip veiðar seint eða um það leyti sem Japansfrysting og hrognavinnsla gat hafist. Það voru erlend skip sem lögðu stund á veiðarnar á fyrri hluta vertíðarinnar en mörg þeirra lönduðu afla sínum hér á landi og var það svo sannarlega mikilvægt fyrir vinnslufyrirtækin.
 
Reikna má með að nýafstaðin loðnuvertíð gæti skilað um 19 milljörðum króna í útflutningsvermæti og eru það mun minni verðmæti en loðnuvertíðin í fyrra skilaði. Alls var úthlutað 390 þúsund tonnum til íslenskra skipa á vertíðinni 2015 og var gert ráð fyrir að verðmæti loðnunnar á þeirri vertíð næmu 27 milljörðum króna. Hafa ber í huga að á vertíðinni 2014 var einungis úthlutað rúmlega 127 þúsund tonnum til íslenskra loðnuskipa og sést glöggt á þessu hve sveiflukenndar loðnuvertíðir síðustu ára hafa verið.
 
Á nýliðinni vertíð veiddi Beitir NK 6.348 tonn af loðnu og Börkur NK 6.587 tonn. Þriðja skipið sem landaði öllum sínum afla til vinnslu hjá Síldarvinnslunni, Bjarni Ólafsson AK, aflaði 3.701 tonn. Erlend skip (norsk og eitt færeyskt) lönduðu síðan 8.622 tonnum til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
 
Í Neskaupstað lönduðu Hákon EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og grænlenska skipið Polar Amaroq sjófrystri loðnu, samtals 8.491 tonni.
 
Alls tók Síldarvinnslan á móti 43.368 tonnum af loðnu á vertíðinni sem var að ljúka þegar sjófryst loðna er meðtalin. Eru það mikil viðbrigði frá vertíðinni 2015 þegar fyrirtækið tók á móti 138.230 tonnum, en á vertíðinni 2014 var móttekið hráefni hins vegar um 45.000 tonn. 
 
Alls voru fryst 15.287 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði hjá Síldarvinnslunni. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Athygli vekur að hér er um að ræða meiri frystingu en á vertíðinni í fyrra en þá nam heildarfrystingin 12.105 tonnum hjá Síldarvinnslunni. Fyrir utan eigin framleiðslu annaðist Síldarvinnslan frystingu á loðnuhrognum sem unnin voru hjá Eskju á Eskifirði eins og hún hefur gert undanfarnar vertíðir.
 
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og í Helguvík tóku á móti loðnu til vinnslu á nýliðinni vertíð en engri loðnu var landað í verksmiðjuna á Seyðisfirði.  Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 16.371 tonnum en verksmiðjan í Helguvík á móti 3.219 tonnum. Öll loðna var veidd til manneldisvinnslu á vertíðinni og því var hráefni verksmiðjanna einkum það sem flokkaðist frá við þá vinnslu. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var þegar fiskimjölsverksmiðjurnar voru í aðalhlutverki á hverri loðnuvertíð. Nútíma fiskiðjuver sem framleiða frysta loðnu og loðnuhrogn til manneldis, eins og fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, afkasta álíka miklu og öflugar fiskimjölsverksmiðjur gerðu fyrir nokkrum árum og er þessi breyting á nýtingu loðnunnar gott dæmi um þá framþróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi.