Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.
Lóa Margrét Pétursdóttir er Seyðfirðingur í húð og hár, fædd þar og uppalin. Hún hóf störf í frystihúsinu á Seyðisfirði 14 ára gömul og hefur starfað þar síðan, að einu ári undanskildu en þá dvaldi hún í Reykjavík. Lóa tók við starfi yfirverkstjóra í frystihúsinu fyrir tveimur árum en hafði áður sinnt verkstjórastarfi í afleysingum. Hún segir að ýmislegt hafi breyst frá því að hún hóf störf í frystihúsinu. „Eignarhaldið á húsinu hefur tekið sífelldum breytingum frá því að ég byrjaði að starfa. Einu sinni var húsið rekið af Dvergasteini og einnig af Útgerðarfélagi Akureyrar, Skagstrendingur kom til sögunnar um tíma og síðan Gullberg og Brimberg áður en Síldarvinnslan festi kaup á því árið 2014. Með tilkomu Síldarvinnslunnar breyttist það helst að alltaf var hráefni til staðar og vinnslan varð samfelld. Áður hafði hráefnisöflunin verið sífellt vandamál og því fór fjarri að vinnsla væri í húsinu alla daga. Sú breyting sem helst hefur átt sér stað í frystihúsinu er að nú er íslenskt starfsfólk í miklum minnihluta en áður sinntu Íslendingar öllum störfum. Ég hugsa að um 70% starfsfólksins sé af erlendum uppruna. Hér starfar til dæmis fólk frá Póllandi, Litháen, Lettlandi, Tyrklandi, Serbíu og Búlgaríu. Stundum gætir dálítilla tungumálaerfiðleika en þau sem hafa starfað lengst eru orðin mjög fín í íslensku og hjálpa til. Ég er að sjálfsögðu í góðum tengslum við allt starfsfólkið og það gengur vel. Í sannleika sagt ríkir hér afar góður starfsandi og frystihúsið er skemmtilegur vinnustaður. Ég finn mig vel í starfi yfirverkstjóra og hef akkúrat yfir engu að kvarta.”