Seyðisfjörður á fögrum sumardegi, en myndin sýnir einmitt helsta hamfarasvæðið. Unga stúlkan á myndinni bjó í Framhúsinu sem gjöreyðilagðist í stóra aurflóðinu sem féll sl. föstudag. Ljósm. Ómar Bogason

Tjónið á Seyðisfirði er mikið. Fólk hefur misst eigur sínar, íbúar hafa orðið fyrir áfalli þar sem náttúran minnti á sig. Skarð hefur verið höggvið í bæinn, sem er á meðal merkustu þéttbýliskjarna á landinu og byggður að drjúgum hluta upp af erlendum athafnamönnum á seinni hluta 19. aldar. Mikil saga um djörfung og hug fyrri tíma hefur farið forgörðum. Sögufræg hús hafa horfið og sum þeirra hafa staðið í yfir 130 ár. Húsin á Seyðisfirði eru mikilvægar minjar um byggingarstíl fyrri tíma.

Það er guðs mildi að enginn skuli hafa slasast eða misst líf í þessum hamförum, en eftir stendur óttinn við náttúruöflin og sár á sálinni sem þarf að græða. Það er brýnt að allir sem eiga um sárt að binda hugi að því og fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Leggja þarf árherslu á rannsóknir í fjallinu og koma þurfa fram trúverðugar lausnir til að tryggja öryggi íbúa. 

Hugur okkar allra er hjá íbúum Seyðisfjarðar og aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með öllu því fólki sem staðið hefur í þessum átökum. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna eru enn og aftur að standa vaktina þegar þörfin er mest, allt það fólk sem unnið hefur dag og nótt við aðgerðastjórn á vettvangi, fólk sem hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Samheldni samfélagsins í kringum Seyðisfjörð sýnir enn og aftur hvað hjarta okkar er stórt þegar kemur að atburðum sem þessum.

Síldarvinnslan er með um 50 starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju og frystihúsinu. Það er guðs blessun að ákveðið var að vera ekki með starfsemi daginn örlagaríka og því engir af okkar starfsmönnum í hættu við störf sín. Mannvirki fyrirtækisins voru utan hamfarasvæðanna, rafmagn og hiti fóru af frystihúsinu en með góðum samskiptum við aðgerðastjórn fékkst leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið á sunnudaginn og koma frystivélum og búnaði í gang þannig að enginn skaði varð. Ferskur fiskur var í kæli hússins sem þurfti að koma í vinnslu annað. Á mánudag fengum við leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið og ná í ferska fiskinn og nutum við aðstoðar  varðskipsins Týs við það verkefni.

Staðan er þannig núna að svæðið er lokað og óvíst er hvenær við getum farið með fólk inn á það.  Framundan er gríðarlegt hreinsunarstarf og óvíst er hvað það tekur langan tíma.  Við vonumst til að geta farið að vinna fisk í frystihúsinu hinn 6. janúar nk.,  en við munum halda góðu sambandi við aðgerðastjórn á Seyðisfirði og vonumst til að eiga gott samstarf við hana áfram.  Alla tímasetningar verða endurmetnar með tilliti til framgangs hreinsunarstarfsins.

Hugur minn og okkar allra er hjá Seyðfirðingum núna. Þetta er erfitt, en samheldni og samtakamáttur mun koma þeim í gegnum þetta. Guð gefi Seyðfirðingum öllum gleðileg jól. Það mun aftur koma „vor við Seyðisfjörð.“ 

Kveðja, Gunnþór Ingvason