Rannsóknateymi Hafrannsóknastofnunar í borðsalnum á Gullver undir mynd af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Talið frá vinstri: Hrefna Zoega, Ása Hilmarsdóttir, Klara Jakobsdóttir leiðangursstjóri, Ragnhildur Magnúsdóttir og Sólrún Sigurgeirsdóttir

Heimasíðan hafði samband við Steinþór Hálfdanarson, skipstjóra á Gullver NS, klukkan tíu í morgun og spurði hvernig rallið gengi. „Ég held að megi segja að það gangi bara vel. Við erum að fara að taka síðasta holið af 151 og erum að fara að kasta akkúrat núna. Við erum á Bakkaflóadýpinu og hér er suðvestan vindur og sólskin. Ég held að megi segja að þetta hafi gengið samkvæmt áætlun. Við hófum rallið 1. mars, fórum í land þegar við vorum hálfnaðir og síðan þurftum við að skutla veikum skipverja í land. Annars hefur allt gengið eftir bókinni og það hafa ekki verið teljandi tafir vegna veðurs. Hér um borð eru fimm starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun og það vill svo til að það eru allt konur. Ég held að það sé einstakt um borð í togara í ralli. Mönnum líkar vel að hafa þær hér um borð. Hér er allt í sátt og samlyndi. Nú höldum við inn á Seyðisfjörð í kvöld og það er gert ráð fyrir að skipið haldi síðan til veiða á sunnudag,“ segir Steinþór.