Vilhelm Þorsteinsson EA kom í gærkvöldi með 1.550 tonn af íslenskri sumargotssíld til Neskaupstaðar. Það er síðasti síldarfarmurinn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Heimasíðan ræddi við Birki Hreinsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig hefði fiskast í veiðiferðinni. „Það gekk vel að veiða. Við vorum á miðunum í tvo og hálfan sólarhring og þar af einungis einn og hálfan sólarhring að veiðum. Við lónuðum í heilan sólarhring í slæmu veðri. Aflinn fékkst í fjórum holum utarlega í Kolluálnum. Það voru fínustu lóðningar þarna. Síldin er svipuð og hún hefur verið alla vertíðina. Þetta er 270-300 gramma síld. Þessi síldarvertíð byrjaði með stæl og fínustu veiði en síðan dró verulega úr veiðinni. Nú undir lokin var hins vegar góð veiði á ný. Það verður búið að landa aflanum seinni partinn á morgun eða annað kvöld og þá verður stefnan tekin beint á loðnumiðin. Það verður ávallt vart við ákveðna spennu þegar loðnuvertíð er að hefjast og menn finna skýrt fyrir henni,“ segir Birkir.