Gullver NS hefur landað í síðasta sinn á þessu ári. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gærmorgun úr síðasta túr ársins. Aflinn var 52 tonn, nær einungis þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að túrinn hafi byrjað í slæmu veðri á föstudag en það hafi síðan gengið niður síðdegis á laugardag og verið mun skárra eftir það. „Við vorum að veiðum frá Tangaflaki og suður í Litladýpi. Það var engin hörkuveiði í þessari veiðiferð. Þetta var bara nudd allan tímann. Nú er komið jólafrí hjá okkur og það eru auðvitað allir ánægðir að fá nokkra góða daga til að slappa af og njóta samvista við sitt fólk. Það er ekki gert ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný fyrr en 2. janúar,“ segir Þórhallur.

Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, upplýsir að gert sé ráð fyrir að vinnslu í húsinu ljúki á morgun eða á föstudag. Að vinnslu lokinni verður allt þrifið og gert fínt fyrir hátíðina.