Það hefur aldrei verið leiðinlegt að umgangast Sidda. Ljósm. Þórarinn Ómarsson

Sigfús Sigfússon, eða Siddi eins og hann er oftast kallaður, hefur látið af störfum hjá Síldarvinnslunni. Hann varð sjötugur 27. janúar sl. og þann dag kvaddi hann vinnustaðinn eftir langan og farsælan starfsferil. Heimasíðan hitti Sidda nýverið að máli og spjallaði stuttlega við hann um þessi tímamót í lífi hans.

  • Segðu mér í stuttu máli frá uppruna þínum og hvenær þú flyst til Neskaupstaðar.

Ég er fæddur og uppalinn á Raufarhöfn og fór þar snemma að vinna eins og strákar gerðu almennt. Að því kom að ég fór á sjóinn og var um tíma á bát frá Hnífsdal og síðan á öðrum frá Vestmannaeyjum. Að því kom að ég færði mig til Eskifjarðar og réðist þá á Guðrúnu Þorkelsdóttur og síðan á Jón Kjartansson á síld og loðnu. Til Neskaupsaðar flutti ég um jólin 1971 en þá hafði ég kynnst konunni minni, Árnínu Jónsdóttur. Við Árnína giftum okkur um þessi jól og hófum okkar farsæla búskap. Nú var ég orðinn rótfastur eftir að hafa flakkað töluvert eftir að ég byrjaði á sjó.

  • Geturðu sagt okkur stuttlega frá starfsferlinum eftir að þú fluttist til Neskaupstaðar?

Já, ég byrjaði á því að vinna í frystihúsi Síldarvinnslunnar en síðan fór ég á Björgu sem kokkur. Síðar var ég einnig kokkur á Sveini Sveinbjörnssyni. Að því kom að ég hóf störf hjá Dráttarbrautinni og þar vann ég í fjölda ára. Störf mín hjá Dráttarbrautinni voru fjölbreytt og ég vann til dæmis við bátasmíði en mest vann ég í slippnum. Á þessum tíma var oft mikið að gera í slippnum en fjölmargir bátar voru teknir upp vegna viðhaldsverkefna og síðan þurfti að mála þá og snurfusa. Þegar lítið var að gera hjá Dráttarbrautinni fór ég á sjóinn og mér fannst það alltaf hressandi og skemmtileg tilbreyting. Það mun hafa verið fyrir einum 37 árum að ég fór að vinna hjá Síldarvinnslunni en hafa ber í huga að Síldarvinnslan var farin að reka Dráttarbrautina þegar ég hóf þar störf og því má segja að starfsferill minn hjá Síldarvinnslunni spanni um 50 ár.

Siddi starfaði hjá Dráttarbrautinni og Síldarvinnslunni í hálfa öld. Ljósm. Þórarinn Ómarsson
  • Í hverju fólst starf þitt hjá Síldarvinnslunni?

Starf mitt hjá Síldarvinnslunni var bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Ég sinnti þar ýmsum viðhaldsverkefnum og reddingum og þar að auki sá ég um unglingagengið sem ráðið var til starfa á sumrin. Unglingarnir sinntu
málningarvinnu, slætti og ýmsum umhverfisverkefnum. Það var alltaf gefandi að hafa samskipti við unglingana. Starfið fól í sér að ég þurfti að hafa samskipti við mjög marga og það gekk merkilega vel. Starf mitt snerti fiskiðjuverið, fiskimjölsverksmiðjuna og öll skipin og stundum tók ég reyndar þátt í framleiðslustarfseminni.

  • Þú hefur þurft að hafa náin samskipti við marga í þínu starfi?

Já, ég á marga eftirminnilega starfsfélaga. Í Dráttarbrautinni koma menn eins og Sveinn H. Sveinsson og bræðurnir Halldór og Ásmundur Þorsteinssynir upp í hugann. Einnig Ólafur H. Jónsson og Snorri Jónsson. Þá starfaði ég mikið með málurunum Halldóri Þorbergssyni og Hreini Stefánssyni. Það voru skemmtilegir félagar. Síðan hafa samskiptin við forsvarsmenn fiksimjölsverksmiðju, frystihúss og útgerðar verið afar góð. Þá vil ég nefna öðlinginn Þórð M. Þórðarson sem var algerlega einstakur. Það væri hægt að telja upp miklu fleiri. Mér líkaði ávallt afar vel í vinnunni og var mjög heppinn með vinnuveitanda. Efst í huga mínum núna við starfslokin er þakklæti.

  • Hvað á að aðhafast núna þegar þú hefur hvatt lífsstarfið?

Ég mun hafa nóg að gera. Ég á lítinn bát, hef unun af því að fara í berjamó og njóta útivistar. Þá ætla ég að skoða landið enn betur en ég hef gert hingað til. Síðan þarf að dytta að húsinu. Við Árnína kunnum vel að meta sólarlandaferðir og slíkar ferðir verða á dagskrá. Dóttir okkar býr í Bahrein og við munum fljótlega heimsækja hana og dvelja þar í einn og hálfan mánuð eða svo. Síðan ætlum við að koma heim og njóta vorkomunnar og sumarsins. Lífið heldur áfram og það er bæði gott og spennandi.

Tertuveisla við starfslok. Ljósm. Þórarinn Ómarsson