Börkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Börkur NK til Neskaupstaðar úr Smugunni með síðasta makrílfarminn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Afli skipsins var 915 tonn og segir Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri að um sé að ræða ágætan fisk og sé meðalþyngd hans 400-430 grömm. Að auki sé fiskurinn átulaus og henti því afar vel til vinnslu. „Aflinn fékkst í fjórum holum austur undir norsku línunni og það var 400 mílna stím heim,“ sagði Hálfdan. Þegar Hálfdan var spurður út í vertíðina sagði hann: „Hún hefur að mestu gengið vel. Byrjunin var svolítið skrýtin en þá þurfti að sækja aflann vestur fyrir Vestmannaeyjar og í Faxaflóa en á móti kemur að fiskurinn virðist stoppa lengur við landið en áður og veiði hefur staðið yfir lengra fram á haustið. Í fyrra hófust veiðar fyrr og við á Síldarvinnsluskipunum vorum búnir með kvótann í byrjun september. Sjálfsagt eru göngur makrílsins að einhverju leyti breytilegar á milli ára en ljóst er að það var mikið magn af honum við landið í ár eins og mælingar sýndu,“ sagði Hálfdán að lokum.
 
Nú munu Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir snúa sér að veiðum á norsk-íslenskri síld.
 
Ekkert lát er á löndunum vinnsluskipa í Neskaupstað. Í dag er Hákon EA að landa 650 tonnum af frystum makríl og síld og síðastliðinn þriðjudag landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 550 tonnum. Kristina EA landaði á laugardag og sunnudag 2340 tonnum og er það án efa stærsti farmur af frystum afurðum sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.