Beitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK að landa í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með tæplega 900 tonn af íslenskri sumargotssíld. Er þetta síðasti síldarfarmurinn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í bili eða þar til afli berst að landi  á ný að loknu verkfalli. Börkur NK landaði 880 tonnum af síld til vinnslu fyrr í vikunni og á undan honum landaði Bjarni Ólafsson AK 670 tonnum.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði af aflinn hefði fengist í fimm holum. „Þetta voru fimm hol og þau voru afar misjöfn að stærð. Það stærsta var 330 tonn en hið minnsta um 90 tonn. Veiðin er mjög breytileg en það eru blettir sem gefa góðan afla. Vandinn er að hitta á blettina. Almennt verður þó að segjast að það er ekki mikið að sjá af síld. Í túrnum byrjuðum við veiðar um 70 mílur vestur af Reykjanestá en enduðum um 115 mílur norðvestur af tánni. Þarna var bræla um tíma og við héldum bara sjó í eina 12 tíma. Eftir svona brælu tekur alltaf tíma að finna fiskinn á ný,“ sagði Tómas.