● Þegar fiskflutningar Barkar hófust árið 1983 leitaði vikublaðið Austurland til Ólafs Gunnarssonar framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og spurði hann hvers vegna fyrirtækið gripi til þessarar ráðstöfunar, en um leið var minnt á að líklega væru yfir 30 ár liðin frá því að norðfirskt skip hefði siglt með afla annarra skipa. Ólafur sagði að meginástæðan fyrir siglingum Barkar væru þrjár. Í fyrsta lagi væri verið að auka möguleika togara fyrirtækisins til karfaveiða og ef Börkur annaðist siglingar með karfann væri unnt að komast hjá því að togararnir sjálfir þyrftu að sigla með tilheyrandi töfum frá veiðum. Í öðru lagi myndi Börkur sigla með smáfisk því vinnsla á slíkum fiski væri vandkvæðum bundin og í þriðja lagi væri ljóst að loðnuveiðar yrðu einungis stundaðar 2-3 mánuði á ári og þess vegna væri brýnt að finna verkefni fyrir Börk. Að lokum benti Ólafur á að með siglingum skipsins myndu möguleikar togara og smábáta til veiða almennt aukast.
● Með tímanum var lögð aukin áhersla á að Börkur sigldi til Grimsby með smábátaafla. Hafa verður í huga að sumarið 1983 voru um 70 smábátar gerðir út frá Neskaupstað og átti þeim eftir að fjölga. Árið 1986 voru smábátarnir orðnir rúmlega 100 og líklega náði smábátaútgerðin hámarki sumarið 1989 en þá voru um 120 bátar gerðir út frá staðnum og reyndist afli þeirra vera um 4.000 tonn.
● Yfirleitt var átta manna áhöfn á Berki í siglingunum en fjölmargir Norðfirðingar fengu að fara með í siglingatúra og upplifa dásemdir Grimsby. Það er um 800 mílna sigling frá Neskaupstað til Grimsby og tók siglingin gjarnan þrjá til fjóra sólarhringa.
● Þegar til Grimsby kom var aflanum skipað á land en fiskurinn var fluttur út ísaður í plastkössum. Þegar fiskurinn var kominn í land birtist fjöldi manna í hvítum sloppum sem gengu á milli kassanna, skoðuðu fiskinn og lyktuðu af honum. Þetta voru fiskkaupmenn sem keyptu fisk á markaðnum. Síðan hófst uppboðið á fiskinum og voru gjarnan þrír uppboðshaldarar sem sáu um það. Fiskkaupmennirnir hrúguðust í kringum þá. Öll hersingin æddi á milli fiskkassanna með tilheyrandi hrópum og köllum og einnig hvísli í eyru uppboðshaldaranna. Fyrir leikmenn var ógerningur að átta sig á því að þarna ríkti eitthvert skipulag. Yfirleitt var síðan allur fiskurinn úr Berki seldur á um það bil hálftíma. Þetta tók svo sannarlega fljótt af.
● Barkarmenn voru orðnir svo heimavanir í Grimsby eftir að hafa siglt þangað árum saman að þeir töluðu um fólk og staði þar með svipuðum hætti og þeir töluðu um sveitunga sína og staði í heimabænum. Á þessum árum var kráin Rainbow, Young Chinese Restaurant – Disco and Dinner og danshúsið The Winter Gardens nefnt álíka oft í Neskaupstað og félagsheimili heimamanna, Egilsbúð. Barkarmenn voru orðnir svo heimavanir á Young Chinese Restaurant að þeir fóru þar inn bakdyramegin og í gegnum eldhúsið svo þeir þyrftu ekki að bíða í biðröð. Í hvert sinn sem gestir fengu að fljóta með Berki til Grimsby voru þeir leiddir inn á þá dýrðarstaði sem áhöfn skipsins þekkti best og hafði mest viðskipti við.
● Guðmundur heitinn Bjarnason fór með Berki til Grimsby í september 1984 og skrifaði fróðlega grein um túrinn. Hann lýsir því til dæmis hve kráin Rainbow kom honum á óvart því hann hafði ímyndað sér að hún væri sóðabúlla. Kráin reyndist vera tiltölulega huggulegur staður með plusssætum og öllu tilheyrandi. Þá varð hann mjög undrandi þegar hann hitti þá Grimsbykonu sem Barkarmenn töluðu helst um, Lindu Johnson, en hún var fastagestur á Rainbow og drottning staðarins. Guðmundur hafði haldið að hún væri stútungskerling og heldur óaðlaðandi en í ljós kom að Linda var ung stúlka og eldhress sem gaman var að spjalla við. Tengsl Barkarmanna og Lindu voru sterk og traust og þegar þeir birtust á kránni tók hún á móti þeim eins og þjóðhöfðingjum.
● Guðmundur segir einnig í greininni að engu líkara hafi verið en Barkarmenn hafi átt heima á Young Chinese Restaurant. Hann fór með þeim inn á staðinn bakdyramegin og þegar gengið var í gegnum eldhúsið kíktu menn jafnvel í pottana. Danshúsið The Winter Gardens naut líka reglulega návista við Barkarmenn. Þangað kom mikill fjöldi gesta, einkum á miðvikudagskvöldum. Þar voru sjómannskonur, ógiftar vinnukonur, reiðar eiginkonur, gleðikonur og karlmenn í veiðihug. Að mörgu leyti minnti miðvikudagskvöld á The Winter Gardens á íslenskt sveitaball af bestu gerð og það var án efa þess vegna sem Barkarmenn létu sig vart vanta þar þegar eitthvað var um að vera.
● Grimsbyferðir Barkar voru nýttar til verslunar í stórum stíl. Meðal annars voru keyptar sláttuvélar af gerðinni Flymo þannig að þær voru til á fjölmörgum heimilum í Neskaupstað. Eins var keypt mikið af reiðhjólum, barnafötum og pappírsbleyjum ásamt öðru góssi. Allt fékkst þetta á hagstæðu verði í breska hafnarbænum. Svarta gengið svokallaða, sem var tollaragengi að sunnan, kom reglulega og tók á móti Berki þegar hann kom úr siglingatúrunum en leit þeirra um borð í skipinu skilaði aldrei miklum árangri. Þá skal þess getið að í hverri ferð voru allir tankar Barkar fylltir olíu sem fékkst á miklu hagstæðara verði í Grimsby en á Íslandi.
● Tengsl Barkarmanna við Grimsby urðu svo sannarlega traust og leiddu til ýmissa samskipta. Eitt það eftirminnilegasta í því samhengi var heimsókn knattspyrnuliðsins Grimsby Town til Íslands sumarið 1986. Í siglingaferðum Barkar til Grimsby fæddist sú hugmynd að knattspyrnuliðið myndi heimsækja Neskaupstað og leika við Þrótt. Á þessum árum var Grimsby Town ágætis lið og átti tryggt sæti í næst efstu deild ensku knattspyrnunnar. Eftir samningaviðræður við stjórn enska félagsins var tekin ákvörðun um að Þróttur og fisksölufyrirtækið Fylkir í Grimsby myndu bjóða liðinu í Íslandsferð og með í þeirri för skyldu vera Jón Olgeirsson ræðismaður í Grimsby, Michael Brown þingmaður frá Grimsby og blaðamaður frá Grimsby Evening Telegraph. Ákveðið var að Grimsby Town skyldi leika þrjá leiki á Íslandi, við ÍBV, Akranes og Þrótt, en Magni Kristjánsson skipstjóri á Berki hafði forystu um skipulagningu heimsóknarinnar.
● Gestirnir frá Grimsby komu til Neskaupstaðar hinn 8. ágúst og daginn eftir fór knattspyrnuleikurinn gegn Þrótti fram á malarvellinum. Þótti leikurinn hin besta skemmtun og lögðu um 600 manns leið sína á völlinn til að njóta hans. Er þetta án efa í fyrsta og eina sinnið sem erlent knattspyrnulið skipað atvinnumönnum hefur leikið á Austurlandi. Þróttarar stóðu í Grimsbymönnum framan af en á endanum þurftu þeir að láta í minni pokann og töpuðu leiknum 6-0. Lék Karl Þórðarson frá Akranesi með Þrótti í annan hálfleikinn sem gestur.
● Leikmenn Grimsby Town æfðu stíft í Neskaupstað þá daga sem liðið dvaldi þar og fylgdust bæjarbúar af áhuga með æfingunum enda gekk ekki lítið á þegar þær fóru fram. Að auki bauð bæjarstjórn gestunum til dýrindis veislu og þá fóru þeir ásamt leikmönnum og fulltrúum Þróttar í siglingu um Norðfjörð og Mjóafjörð með varðskipinu Óðni. Í viðtali við Mike Lyons þjálfara Grimsbymanna í vikublaðinu Austurlandi lýsti hann mikilli ánægju með Íslandsferðina og taldi hann að hún kæmi liðinu að góðu gagni. Þá lofaði hann fegurð landsins og allar móttökur. Áður en Mike Lyons hóf þjálfun var hann lengi leikmaður Everton og mikil hetja í þeim herbúðum.
● Það eru ekki síst minningar frá þessum tíma sem gera það að verkum að Norðfirðingar hugsa gjarnan afar hlýtt til Grimsby, gamla togarabæjarins við mynni Humberfljótsins.