Gott síldarhol hjá Berki NK. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var helgarfrí um síðustu helgi en vinnsla á síld hófst á ný á mánudagskvöld þegar Beitir NK kom með 1.680 tonn. Börkur NK kom síðan inn í morgun með 1.614 tonn og hafði heimasíðan þá samband við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á honum. Fyrst var spurt hvernig veiðin hefði gengið. „Hún gekk afar vel. Aflann fengum við í fjórum holum og var dregið í þrjá til þrjá og hálfan tíma. Það er síld að sjá á stóru svæði, en við vorum að veiða grunnt á Héraðsflóanum. Síldin er úti um allt þarna, það þarf bara að hitta á hana. Það er töluverð ferð á henni – hún kemur og fer. Megnið af aflanum, eða um 80%, er norsk – íslensk síld, en íslensk sumargotssíld er um 20%. Það verður byrjað að landa úr Berki sídegis þegar lokið verður við að landa úr Beiti. Þessi veiði lítur afskaplega vel út. Þetta er þægilegur veiðiskapur og mjög stutt að fara. Hjá okkur eru fleiri dagar í landi en á sjó. Það má segja að þetta sé bara góð veisla,“ segir Hálfdan.