SíldBirtingur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 500 tonn af síld sem fékkst fyrir vestan land. Er skipið væntanlegt snemma í fyrramálið og hefst þá þegar vinnsla aflans. Sigurður Jóhannesson stýrimaður segir að um sé að ræða fallega síld en veiðin hafi gengið misjafnlega. „Aflinn fékkst í fimm holum en veiðarnar ganga upp og niður. Það finnast blettir en þeir eru fljótir að splundrast þannig að þetta er hittingur. Það er mikil ferð á síldinni og hún fer í ýmsar áttir. Eins og oft áður er snúið að eiga við hana. Það er hins vegar bót í máli að veðrið hefur verið fínt,“ sagði Sigurður.
 
Börkur NK er einnig að síldveiðum fyrir vestan. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra eru 740 tonn komin þar um borð í fimm holum. Segist Hjörvar reikna með að halda áfram veiðum í dag en leggja af stað austur í kvöld.