Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar hafa veitt síld og kolmunna austur af landinu að undanförnu. Beitir NK er að landa 1.600 tonnum af síld í Neskaupstað og Bjarni Ólafsson AK kom um miðnætti með rúm 1.800 tonn af kolmunna eða fullfermi. Beitir hefur að undanförnu verið að síldveiðum og kolmunnaveiðum til skiptis og landaði 1.100 tonnum af kolmunna sl. föstudag. Þá er Hákon EA að landa frystri síld í Neskaupstað þannig að umsvifin við höfnina eru mikil.
Þorkell Pétursson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að talsvert sé að sjá af kolmunna. „Þessi túr hjá okkur var einir sex dagar og við tókum átta hol. Framan af var einungis dregið yfir daginn en síðustu tvo sólarhringana tókum við einnig næturhol. Þetta nuddaðist fínt en stærsta holið var 350 tonn. Næstu tvo daga verður skítviðri á miðunum og ég á ekki von á að farið verði út strax eftir löndun,“ segir Þorkell.