SíldarflökMikið er umleikis í makríl og síld þessa dagana og kom Beitir NK í morgun með um 400 tonn af makríl og síld.  Börkur NK, Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK landa með reglulegu millibili til að skammta vinnslunni hæfilega svo hægt sé að gera sem mest úr þeim afla sem berst að landi.  Megninu af aflanum er landað til manneldis.  Síldin er flökuð en makríllinn er hausaður og slógdreginn, afskurður og það sem flokkast frá fer síðan í bræðslu.  Það eru rúmlega 80 manns sem koma að vinnslunni í fiskiðjuverinu og bræðslunni.

Starfsmenn hafa haft í nógu að snúast það sem af er vertíðinni og ekki verður um sumarlokun að ræða þetta árið en það er í fyrsta skiptin síðan hætt var að slátra laxi, árið 2007, sem ekki kemur til sumarlokunar.

Unnið er auk þess hörðum höndum að því að koma upp frysti til að auka verðmæti makrílsins enn meira.  Reiknað er með að hann komist í gagnið um miðjan ágúst eða á þeim tíma sem von er á að makríllinn fari að minnka átið og bjóði upp á heilfrystingu.