Börkur NK með glæsilegt síldarkast. Myndin er tekin sumarið 1995.
Ljósm. Hjörvar Moritz Sigurjónsson

Það urðu merk tímamót í sögu Síldarvinnslunnar þann 11. júní árið 1994. Þann dag var norsk – íslenskri síld landað í fyrsta sinn hjá fyrirtækinu frá því að síld af þeim stofni hvarf af Austfjarðamiðum tæplega þrjátíu árum áður. Það var Arnþór EA sem kom með fyrsta síldarfarminn og fór hann bæði til söltunar og framleiðslu á mjöli og lýsi. Í kjölfarið komu síðan fleiri bátar með góðan afla. Þegar Arnþór lagðist að bryggju hafði allmargt manna safnast þar saman til að fagna þessu margumtalaða silfri hafsins. Það var síldarglampi í augum hvers manns og það ríkti sannkölluð síldargleði. Margir rifjuðu upp síldarárin svokölluðu en þá var Síldarvinnslan að slíta barnsskónum.

Frá þessum tíma hafa íslensk skip veitt árlega úr norsk – íslenska síldarstofninum og hefur Neskaupstaður verið ein helsta löndunarhöfnin. Skip Síldarvinnslunnar hafa lagt stund á þessar veiðar og fyrirtækið lagt áherslu á að gera sem mest verðmæti úr aflanum. Vinnslan hefur þó breyst með tímanum. Síldarvinnslan hætti að salta síld til útflutnings árið 2003 en áhersla á frystingu á heilli síld og flökum hefur ávallt verið mikil. Manneldisvinnsla er ríkjandi þegar síldin er annars vegar og mikil afköst fiskiðjuvers fyrirtækisins hafa komið sér afar vel. Mjöl og lýsi er framleitt úr afskurði frá manneldisvinnslunni og þeim fiski sem flokkast frá við hana.

Í fyrstu var mestur hluti síldaraflans sóttur á hafsvæði utan íslenskrar lögsögu en með árunum gekk síldin inn í lögsöguna og þar hefur veiðin farið fram síðustu árin. Á yfirstandandi síldarvertíð hafa skipin að venju veitt út af Austfjörðum, fyrst á Héraðsflóanum og Bakkaflóanum en þegar leið á vertíðina færðist veiðin einnig sunnar. Staðreyndin er sú að síldargöngunum svipar töluvert til þess sem einkenndi síldarárin sem menn eystra eiga svo ríkar minningar um.

Nú er veiðum á norsk – íslenskri síld að ljúka á yfirstandandi vertíð. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með 1665 tonn sem fékkst í fjórum holum á Hérðasflóanum.