Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að landa úr Berki NK. Margrét EA kemur til hafnar með 1.100 tonn af síld. Ljósm. Smári Geirsson

Síldarvertíðin hefur gengið afar vel til þessa og skipin stoppa stutt á miðunum. Landað var úr Beiti NK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um helgina og aðfaranótt mánudags kom Börkur NK með 1.050 tonn sem fengust í tveimur holum. Verið er að landa úr Berki og mun vinnslu úr afla hans ljúka í kvöld. Nú fyrir hádegi kom Margrét EA til Neskaupstaðar með 1.100 tonn og mun vinnsla á afla hennar hefjast strax og lokið verður við að vinna úr Berki. Heimasíðan heyrði hljóðið í Guðmundi Þ. Jónssyni, skipstjóra á Margréti. „Þessi vertíð hefur einkennst af hörkuveiði. Það er ekki hægt að biðja um það betra. Við fengum þessi 1.100 tonn í tveimur holum í Seyðisfjarðardýpinu. Síldin sem nú veiðist er heldur smærri en sú síld sem veiddist fyrr á vertíðinni. Hún er að meðaltali 360-370 grömm, en hún hentar vel til vinnslunnar. Nú fer að síga á seinni hluta vertíðarinnar hjá okkur. Við eigum einungis eftir að veiða rúm 2.000 tonn af kvótanum okkar,“ segir Guðmundur.