Veisluborðið í Randulffs-sjóhúsi í gærkvöldi var girnilegt.Veisluborðið í Randulffs-sjóhúsi
í gærkvöldi var girnilegt
.
 
Í gærkvöldi var boðið upp á síldarveislu í Randulffs-sjóhúsi á Eskifirði. Þar voru á boðstólum um 20 girnilegir síldarréttir. Það er Tinna Rut Ólafsdóttir smurbrauðsjómfrú í Neskaupstað sem hefur veg og vanda að veislunni en sænkur matreislumaður, Peter Bengtson, leggur einnig sitt af mörkum. Peter dvelur í Neskaupstað um þessar mundir á vegum MatAttack verkefnisins, en MatAttack tengist ArtAttack verkefninu sem hófst með áberandi hætti í fyrra.
 
Peter Bengtson og Tinna Rut Ólafsdóttir. Ljósm. Smári GeirssonPeter Bengtson og Tinna Rut Ólafsdóttir.
Ljósm. Smári Geirsson
Heimasíðan ræddi við Tinnu Rut fyrir veisluna í gær, en Tinna er menntuð smurbrauðsjómfrú frá Danmörku og heillaði gesti Hótels Eddu í Neskaupstað á nýliðnu sumri með einstaklega girnilegu  smurbrauði. Tinna lærði í Danmörku og var Ida Danielsen lærimeistari hennar en segja má að Ida sé toppurinn í smurbrauðsbransanum. Tinna segist hafa kynnst því í Danmörku hvað síld sé frábær matur. „Það er hægt að gera svo ótrúlega margt með síld og Íslendingar virðast aldrei hafa verið duglegir að matreiða hana. Til dæmis í Danmörku og Svíþjóð þykir síld algjör herramannsmatur og þar er hún matreidd með fjölbreyttum hætti. Ég vil kynna fyrir Austfirðingum síldarrétti sem eru þekktir annars staðar á Norðurlöndum og ég vil nota í réttina austfirskt hráefni í eins ríkum mæli og mögulegt er. Ég fæ mikið af hráefni frá Síldarvinnslunni og einnig frá Loðnuvinnslunni og Eskju. Allt brauð kemur frá Sesam bakaríi á Reyðarfirði og boðið er upp á síld sem steikt er úr byggi frá Vallanesi. Þá er bjórinn sem boðið er upp á frá Beljanda brugghúsi. Allt hráefni sem ég nota er frábært og mér finnst að Austfirðingar þurfi að kynnast því hvernig unnt er að matreiða úr því. Þá vil ég leggja áherslu á að Randulffs-sjóhús leggur til alla aðstöðu og gerir þetta framkvæmanlegt.
 
Peter Bengtson er sænskur matreiðslumaður sem er að starfa hjá Hótel Hildibrand í Neskaupstað í tengslum við MatAttack verkefnið og það lá beint við að hann tæki þátt í þessari síldarveislu.
 
Við ætlum að bjóða upp á síldarrétti á Tæknidegi fjölskyldunnar í  Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað á morgun. Ég vona að fólk sleppi ekki tækifærinu sem þar gefst til að kynnast fjölbreyttum og frábærum síldarréttum,“ segir Tinna Rut.
 
Síldarveislan í Randulffs-sjóhúsi í gærkvöldi þótti takast frábærlega. Fjöldi fólks lagði leið sína í veisluna og kvaddi satt og ánægt. Margir höfðu orð á því að það væri hreint ótrúlegt hvað unnt væri að gera úr síldinni.