Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa síld í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 1.260 tonn af norsk – íslenskri síld. Vinnsla síldarinnar hófst síðan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á sunnudagsmorgun. Heimasíðan ræddi við Birki Hreinsson skipstjóra og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Hún fékkst á Héraðsflóanum eða norðantil á Glettinganesflakinu. Þetta er í reynd sami staður og við höfum helst veitt síldina á undanfarin ár. Við stoppuðum einungis 14 tíma á miðunum og tókum þrjú hol. Í fyrsta holinu fengust 450 tonn, 660 í því næsta og í lokaholinu voru 150 tonn. Þegar veiðum lauk voru einungis 33 mílur til Neskaupstaðar þannig að þetta getur vart verið þægilegra. Þetta er fínasta síld og ætti að henta afar vel til vinnslu. Þarna á að vera unnt að veiða töluvert af síld næstu tvo mánuðina þannig að mér líst býsna vel á framhaldið. Það er ólíkt þægilegra að eiga við síldina þarna en makrílinn, ég tala nú ekki um þegar þurfti að fara yfir 600 mílur til að sækja makrílinn. En nú virðist makrílvertíðin vera að fjara út. Vilhelm er með 10.000 tonna kvóta þannig að við höfum nóg að gera á næstunni og það er svo sannarlega engin þörf á að kvarta miðað við þessa byrjun,“ segir Birkir.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, staðfestir orð Birkis. Hann segir að hér sé um virkilega fallega síld að ræða, hún sé bæði stór og átulaus. Síldin er bæði heilfryst og flökuð.