Sl. laugardag stóð félagið Ungt Austurland fyrir náms- og atvinnulífssýningu í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Sýningin bar yfirskriftina að heiman og heim. Helsti styrktaraðili sýningarinnar var Samband sveitarfélaga á Austurlandi og var hún eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Austurlands.
Markmið sýningarinnar var að kynna fyrir ungu fólki fjölbreytt og spennandi framtíðartækifæri á Austurlandi en til hliðar við sýninguna voru fluttir ýmsir fyrirlestrar sem tengdust efninu.
Alls kynntu um fimmtíu fyrirtæki, félög og stofnanir starfsemi sína á sýningunni og var Síldarvinnslan þar á meðal. Fjölmargir heimsóttu kynningarbás Síldarvinnslunnar og þar voru upplýsingar veittar um fyrirtækið og fyrirspurnum gesta svarað. Athygli vakti að þó að sýningin væri einkum ætluð ungu fólki þá heimsótti hana fólk á öllum aldri og virtist njóta þess að fræðast um þá fjölbreyttu starfsemi sem þrífst í austfirsku samfélagi.
Þetta framtak félagsins Ungt Austurland er lofsvert og ánægjulegt var að sjá hve þátttakan í sýningarhaldinu var góð. Ungt Austurland var stofnað árið 2017 og eru það félagasamtök ungs fólks á aldrinum 18 – 40 ára. Tilgangur félagsins er að gera Austurland að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk, að styrkja tengslanet ungs fólks á Austurlandi, auðga umræðu um byggðaþróun á Austurlandi og vera öflugur málsvari ungs fólks í landshlutanum.