Fylgst með kynningarmyndböndum um veiðar og vinnslu.  Ljósm. Þorgeir Baldursson

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað s.l. laugardag en auk Verkmenntaskólans stóðu Austurbrú og Háskólinn í Reykjavík fyrir deginum.

Síldarvinnslan tók þátt í deginum ásamt fjölda fyrirtækja og stofnana og þar mátti kynnast tækninýjungum, meðtaka ýmiss konar fróðleik og hlýða á fyrirlestra.  Áhersla var lögð á að allir aldurshópar finndu eitthvað við sitt hæfi og eins gátu gestir kynnt sér fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans.

Tæknidagurinn var svo sannarlega vel sóttur og virtust gestir afar ánægðir með framtakið.  Síldarvinnslan og ALCOA – Fjarðaál deildu kennslustofu á deginum og heimsóttu hana fjöldi manns til að kynna sér starfsemi fyrirtækjanna.  Síldarvinnslan lét útbúa myndbönd og veggspjöld með upplýsingum um starfsemi sína og þótti gestum augljóslega áhugavert að fræðast um þær framfarir sem átt hafa sér stað bæði á sviði veiða og vinnslu á starfstíma fyrirtækisins.