Síldarvinnslan hefur hafið vinnu við gerð fræðsluáætlunar fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins í samvinnu við Austurbrú. Þessar vikurnar stendur yfir mat á fræðsluþörf sjómanna en í kjölfarið mun hefjast vinna við að meta fræðsluþörf annars starfsfólks. Fyrsti þáttur verkefnisins nefnist Fræðslustjóri að láni og taka fræðslusjóðir starfsfólks fullan þátt í því. Heimasíðan ræddi við Hrönn Grímsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú, og bað hana að greina frá því hvar þetta athyglisverða verkefni væri statt. “Það hefur verið myndaður stýrihópur sem hefur meðal annars það hlutverk að vera milliliður á milli starfsfólks, stjórnenda og fræðslustjóra Austurbrúar auk þess að vera til ráðgjafar. Hjá Austurbrú vinna með mér að verkefninu þær Úrsúla Manda Ármannsdóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir. Markmiðið með fyrsta hluta verkefnisins er að meta fræsðluþarfir sjómanna, hæfnigreina störfin um borð og gefa öllum færi á að taka þátt. Afurðin verður síðan fræðsluáætlun til tveggja ára. Fræðsluáætlunin mun innihalda fjölbreytt námskeið bæði almenn og sérhæfð og mun starfsfólkinu gefast kostur á að sækja að minnsta kosti tvö námskeið á önn. Með þessu móti er Síldarvinnslan að taka fræðslumálin föstum tökum og setja þau í markvissan farveg. Það að starfsfólk sé virkt í símenntun er gríðarlega mikilvægt bæði fyrir starfsfólkið sjálft og fyrirtækið. Það er virkilega spennandi að vinna að þessu verkefni með sjómönnunum og í kjölfarið mun sambærileg vinna fara fram með starfsfólki í landi. Á fundum með rýnihópum sjómanna hefur margt áhugavert komið fram og er ánægjulegt að sjá hve þeir sýna verkefninu mikinn áhuga. Útgerð á vegum Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum tekur fullan þátt í þessu verkefni og þar erum við í samstarfi við Visku, símenntunarmiðstöðina þar,” segir Hrönn.