• Eitt besta rekstrarár Síldarvinnslunnar hf. til þessa.
  • Loðnuvertíð var góð í upphafi árs.
  • Veiðar á makríl gengu vel og veiðarnar fór að mestu fram í íslenskri lögsögu.
  • Síldveiðar á haustmánuðum gengu vel og stutt var að sækja.
  • Umfang bolfiskstarfsemi hefur aukist með tilkomu Vísis í samstæðuna.
  • Óvissa með áframhaldandi bolfiskstarfsemi í Grindavík í kjölfar jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi.
  • Mjöl- og lýsismarkaðir voru sterkir á árinu og verð há.
  • Með fjárfestingu í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood styrkist sölu- og markaðsstarf félagsins.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður ársins nam 73,4 m USD og 10,6 m USD á fjórða ársfjórðungi.
  • Rekstrartekjur ársins námu 404,7 m USD og 86,8 m USD á fjórða ársfjórðungi.
  • EBITDA var 121,8 m USD eða 30,1% á árinu og 25,4 m USD eða 29,3% á fjórða ársfjórðungi.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok ársins námu 1.099 m USD og eiginfjárhlutfall var 58,6%.

Rekstur

Tekjur á árinu 2023 námu 404,7 m USD og 86,8 m USD á fjórða ársfjórðungi samanborið við 310,1 m USD árið 2022 og 63,2 m USD á fjórða ársfjórðungi 2022. Rekstrartekjur jukust þannig um 94,6 m USD á milli ára eða 30,5%. Tekjuaukningin skýrist fyrst og fremst af því að þetta var fyrsta heila rekstrarár Vísis ehf. í rekstri samstæðunnar en árið á undan var Vísir ehf. einungis desembermánuð í rekstri samstæðunnar.  

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á árinu 2023 var 121,8 m USD eða 30,1% af rekstrartekjum. Á árinu 2022 var EBITDA 104,6 m USD og 33,7% af rekstrartekjum. Aukning á milli tímabila nemur því 17,2 m USD. Á fjórða ársfjórðungi 2023 var EBITDA 25,4 m USD eða 29,3% af rekstrartekjum en hún var 20,6 m USD eða 32,6% af rekstrartekjum á fjórða ársfjórðungi 2022.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 92,2 m USD árið 2023 samanborið við 91,2 m USD árið 2022. Á fjórða ársfjórðungi 2023 var hagnaður fyrir tekjuskatt 12,9 m USD samanborið við 12,5 m USD á sama tímabili 2022. Tekjuskattur fyrir árið 2023 nam 18,8 m USD og hagnaður ársins því 73,4 m USD samanborið við 75,6 m USD hagnað árið 2022. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 10,6 m USD samanborið við 13,1 m USD á sama tímabili 2022.

Efnahagur

Heildareignir námu 1.098,9 m USD í lok desember 2023. Þar af voru fastafjármunir 889,3 m USD og veltufjármunir 209,6 m USD. Í lok árs 2022 námu heildareignir 1.059,8 m USD og þar af voru fastafjármunir 873,3 m USD og veltufjármunir 186,5 m USD. Fastafjármunir jukust því um 16,0 m USD en  fjárfesting í stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað skýrir það að mestu leyti. Veltufjármunir jukust um 23,1 m USD. Handbært fé og birgðir hækkuðu á meðan viðskiptakröfur lækkuðu lítillega á milli tímabilanna.

 Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 644,5 m USD. Eiginfjárhlutfall var 58,6% í lok tímabilsins en það var 55,2% í lok árs 2022.  

Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 454,4 m USD og lækkuðu um 20,1 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 304,7 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 21 m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 75,2 m USD á árinu 2023 en var 87,0 m USD á sama tímabili 2022. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 20,8 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 50,6 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 81,7 m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2023

Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársins reiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins (1 USD=137,98 kr.) voru rekstrartekjur 55,8 milljarðar króna.  EBITDA nam 16,8 milljörðum króna og hagnaður ársins var 10,1 milljarður króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskar krónur á gengi 31. desember 2023 (1 USD=136,2 kr.) voru eignir samtals 149,7 milljarðar króna, skuldir 61,9 milljarðar króna og eigið fé 87,8 milljarðar króna.

Samþykkt árshlutareiknings

Uppgjör ársins 2023 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar hf. hinn 7. mars 2023. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 7. mars 2024

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 7. mars næstkomandi klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið  og verður reynt að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Við erum að loka einu besta rekstrarári í sögu félagsins. Árið hefur verið um margt viðburðaríkt og uppbygging félagsins haldið áfram.  

Loðnuvertíðin 2023 gekk vel og var mikið framleitt. Aukning aflaheimilda seint á vertíðinni skilaði metframleiðsla loðnuhrogna. Framleiðsla var töluvert umfram eftirspurn og fylgdu mikil verðlækkun og birgðasöfnun í kjölfarið.

            Heilt yfir gengu uppsjávarveiðar vel á árinu. Makrílveiðar fóru að stærstum hluta fram innan íslenskrar lögsögu sem er jákvætt fyrir okkur Íslendinga.

            Markaðsaðstæður fyrir uppsjávarafurðir voru góðar, mjöl- og lýsismarkaðir hafa verið sterkir og mikil eftirspurn. Félagið framleiddi mikið magn af uppsjávarafurðum og vel hefur gengið að selja og afhenda vörur til okkar viðskiptavina.

            Bolfiskskip félagsins fiskuðu vel á árinu. Var þetta fyrsta heila árið með Vísi ehf. sem hluta af samstæðunni. Vinnslur gengu vel á árinu allt þar til jarðhræringar á Reykjanesi hófust þann 10. nóvember.

Á haustmánuðum kynntum við um lokun á bolfiskvinnslu okkar á Seyðisfirði sem mun taka gildi nú á vormánuðum.  Um áramót lögðum við einum línubát hjá Vísi.

            Atburðirnir á Reykjanesi hafa sett landvinnslu okkar í Grindavík í ákveðna óvissu. Unnið hefur verið að því að koma upp saltfisksvinnslu annars staðar til skemmri tíma. Þessir atburðir munu ekki skerða rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma litið. Á næstu misserum verður unnið að stefnumótun og endurskipulagningu á bolfiskhluta samstæðunnar.

            Markaðir fyrir bolfiskafurðir voru erfiðari þegar kemur að sjó- og landfrystum afurðum, en saltfiskmarkaðir voru heilt yfir stöðugir. Byrjun ársins 2024 gefur góð fyrirheit um að markaðir séu að rétta úr sér.

            Um mitt ár var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á 50% hlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood ehf. en kaupin eru mikilvæg til að efla enn frekar sölu- og markaðshlið Síldarvinnslunnar. Við sjáum aukin tækifæri í því að íslensk sjávarútvegsfélög snúi bökum saman þegar kemur að sölu- og markaðsstarfi erlendis enda samkeppni hörð á erlendum mörkuðum og samkeppnisaðilar sterkir. Þar teljum við að slíkt samstarf muni skila aukinni verðmætasköpun.

Frábær árangur Síldarvinnslunnar á árinu byggir á áratuga reynslu öflugs starfsfólks á öllum vígstöðvum,  sem hefur lagt mikið á sig á árinu, sem og markvissum fjárfestingum síðustu ára.

Aðalfundur

Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2024 klukkan 14:00 í Safnahúsinu Neskaupstað og verður einnig boðið upp á rafræna þátttöku. Nánari upplýsingar um aðalfund má finna á heimasíðu félagsins www.svn.is

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 2024 – 21. mars 2024
1. ársfjórðungur 2024 – 23. maí 2024
2. ársfjórðungur 2024 – 29. ágúst 2024
3. ársfjórðungur 2024 – 21. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 – 6. mars 2025

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri