Framúrskarandi fyrirtæki logo 2014Fyrirtækið Creditinfo tilnefnir árlega framúrskarandi fyrirtæki í þremur stærðarflokkum. Með valinu er verið að veita viðurkenningu fyrir ráðdeild í rekstri og stöðugleika þar sem fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur þrjú ár í röð. Samtals í flokkunum þremur voru tilnefnd 577 fyrirtæki og hefur þeim fjölgað um 115 frá síðasta ári. Niðurstaðan í ár er sú að tvö af hverjum 100 fyrirtækjum á landinu eru metin framúrskarandi samkvæmt kröfum Creditinfo.
 
Í flokki stórra fyrirtækja er Síldarvinnslan í fimmta sæti sem framúrskarandi fyrirtæki en Samherji  situr þar á toppnum. Dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, Laxá á Akureyri, er á listanum yfir framúrskarandi fyrirtæki 2014 og þar eru einnig eftirtalin fyrirtæki sem Síldarvinnslan á hlut í: Fjarðanet, G. Skúlason og Runólfur Hallfreðsson.
 
Eftirtektarvert er að hlutfall framúrskarandi fyrirtækja er hæst á Austurlandi en þar eru 2,57% fyrirtækja metin framúrskarandi. Eins vekur athygli hve mörg sjávarútvegsfyrirtæki raðast í efstu sætin í flokki stórra fyrirtækja en á meðal 20 efstu eru þau tæplega helmingur.