Samkvæmt mælikvarða Creditinfo eru 1,9% íslenskra fyrirtækja framúrskarandi á árinu 2015. Síldarvinnslan er þar á meðal og er reyndar í sjötta sæti í flokki stórra fyrirtækja þar sem Samherji trónir á toppnum. Til að komast í hóp framúrskarandi fyrirtækja eru gerðar strangar kröfur: Það þarf að vera minna en 0,5% líkur á alvarlegum vanskilum, fyrirtækið þarf að hafa sýnt jákvæðan rekstrarhagnað þrjú ár í röð, niðurstaða ársreiknings þarf að hafa verið jákvæð þrjú ár í röð og eignir séu 80 milljónir eða meira á árunum 2011-2013. Fyrirtækjum er veitt viðurkenning í þremur flokkum og alls uppfylltu 682 fyrirtæki skilyrði Creditinfo af tæplega 35.000 fyrirtækjum sem skráð eru í landinu.
 
Eins og fyrr greinir er Síldarvinnslan í sjötta sæti í flokki stórra fyrirtækja en á heildarlistanum yfir framúrskarandi fyrirtæki má einnig finna dótturfyrirtækið Laxá hf. á Akureyri. Þá eru einnig á listanum eftirtalin hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar: Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi, G. Skúlason vélaverkstæði ehf. í Neskaupstað og Fjarðanet hf. í Neskaupstað.
 
Creditinfo hefur upplýst að 37 fyrirtæki af 449 í sjávarútvegi, eða 8%, séu í hópi framúrskarandi fyrirtækja. Athygli vekur að á meðal 20 efstu fyrirtækjanna í flokki stórra fyrirtækja eru tæplega helmingur sjávarútvegsfyrirtæki. Framúrskarandi fyrirtæki á Austurlandi eru 2,26% þeirra fyrirtækja sem þar starfa og er það næsta hæsta hlutfall landshluta.