Hinn 11. desember árið 1957 var stofnfundur Síldarvinnslunnar hf. haldinn í Neskaupstað. Stofnfundinn sátu 43 menn og samþykktu þeir lög fyrir félagið. Samkvæmt lögunum var tilgangur þess að eiga og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað. Fyrir stofnfundinn hafði hlutafjársöfnun farið fram og gekk hún ekki vel. Markmiðið var að safna einni milljón króna en þegar fundurinn var haldinn höfðu einungis fengist loforð fyrir 455.000 kr. Aðalhluthafinn í Síldarvinnslunni í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna með 60% hlutafjárins en stærstu hluthafarnir þess utan voru Bæjarsjóður Neskaupstaðar og Dráttarbrautin hf. en alls voru hluthafarnir 35 talsins.
Hér verður saga Síldarvinnslunnar ekki rakin en áður en áratugur var liðinn frá stofnfundinum var hún orðin stærsta fyrirtækið á Austurlandi. Í tilefni sextíu ára afmælisins kemur út bókin Síldarvinnslan í 60 ár eftir Smára Geirsson og þar er sögu fyrirtækisins gerð góð skil.
Í dag kl. 16 – 18 verður haldin afmælisveisla í félagsheimilinu Egilsbúð í Neskaupstað. Þangað er boðið fyrrverandi starfsmönnum, eldri borgurum og fulltrúum samstarfsfyrirtækja Síldarvinnslunnar. Í veislunni mun Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri fjalla um núverandi stöðu fyrirtækisins og Smári Geirsson segja frá afmælisritinu. Þá verða félagasamtökum og stofnunum afhentir styrkir í tilefni tímamótanna.