Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um kaupin á Berki NK árið 1973 og útgerð skipsins.
Síldarvinnslan hóf útgerð árið 1965 með tveimur bátum sem smíðaðir voru einkum með síldveiðar í huga. Árið 1967 voru Síldarvinnslubátarnir orðnir fjórir talsins og enn snerist allt um blessaða síldina. En þá dundu ósköpin yfir; síldin hvarf og nauðsynlegt var að aðlaga skipaflotann nýjum aðstæðum. Á árunum 1970 – 1973 var floti fyrirtækisins algerlega endurnýjaður. Skuttogarinn Barði var keyptur 1970 og árið 1973 kom Japanstogarinn Bjartur í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Þá festi Síldarvinnslan einnig kaup á stóru uppsjávarveiðiskipi árið 1973 og fékk það nafnið Börkur. Þetta uppsjávarveiðiskip var 1.000 lestir að stærð og voru margir til að efast um þessi skipakaup, en Jóhann K. Sigurðsson þáverandi framkvæmdastjóri útgerðar Síldarvinnslunnar skýrði þau með greinargóðum hætti. Hann sagði að nauðsynlegt væri fyrir fyrirtækið að eignast stórt loðnuskip því þegar loðnan veiddist langt í burtu væru eldri skip fyrirtækisins ekki nægilega stór til að stunda veiðarnar og sigla með aflann heim en það var oft 14-18 tíma sigling. Sigling með fullfermi svo langa leið væri illframkvæmanleg á litlum skipum í misjöfnum vetrarveðrum. Mikilvægt væri fyrir verksmiðju fyrirtækisins að fá meira hráefni til vinnslu og þetta stóra skip hentaði vel til að tryggja það. Þá benti hann á að menn væru fyrir alvöru farnir að hugsa til kolmunnaveiða og yrði skipið útbúið með flotvörpubúnað til slíkra veiða.
Börkur var fjögurra ára gamalt verksmiðjuskip smíðað í Noregi árið 1968. Það hafði verið í eigu norsks fyrirtækis en skráð með heimahöfn í Hamilton á Bermudaeyjum. Skipið hafði verið gert út til nótaveiða við strendur Afríku en útgerðin hafði gengið illa. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á skipinu var fiskimjölsverksmiðja um borð en hún var tekin úr og seld.
Börkur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 10. febrúar 1973 og vakti koma skipsins mikla athygli. Rætt var um stærð þess og hvort það hentaði til loðnuveiða vegna stærðarinnar. Þá voru deildar meiningar um það hvort raunhæft væri að gera skipið út til kolmunnaveiða.
Fyrsti skipstjórinn á Berki var Sigurjón Valdimarsson og var hann með skipið allt til ársins 1981. Á árunum 1974-1976 var Hjörvar Valdimarsson einnig skipstjóri á móti Sigurjóni og á árunum 1976-1989 var Magni Kristjánsson með Börk, ásamt Sigurjóni framan af. Síðar áttu Jón Einar Jónsson, Helgi Valdimarsson, Sturla Þórðarson, Sigurbergur Hauksson og fleiri eftir að sitja í skipstjórastóli. Vel gekk frá upphafi að veiða loðnu á Börk og hentaði skipið vel til loðnuveiða. Veitt var með nót og óttinn við að kasthringur skipsins væri svo stór að það þyrfti að nota ógnarstórt veiðarfæri reyndist ástæðulaus. Í upphafi var farið varlega og voru einungis 750 tonn af loðnu sett í skipið en brátt færðu menn sig upp á skaftið. Í febrúar 1974 kom Börkur með 900 tonna farm til Neskaupstaðar og var það stærsti loðnufarmur sem íslenskt skip hafði komið með að landi. Og Börkur bætti um betur því í næstu veiðiferð sló hann fyrra met og kom með 950 tonn. Að því kom að farið var að setja ríflega 1.100 tonn í skipið og loks 1.350 tonn. Þetta þóttu gríðarlega stórir farmar.
Börkur hélt til kolmunnaveiða í fyrsta sinn 8. maí 1973. Ekki varð vart við mikinn kolmunna í veiðiferðinni og kom skipið til heimahafnar með 200 tonn 19. maí. Þetta var í fyrsta sinn sem kolmunna var landað í Neskaupstað og bundu menn miklar vonir við kolmunnaveiðarnar. Augljóst var að ef veiðarnar heppnuðust í framtíðinni myndi starfstími fiskimjölsverksmiðjunnar lengjast og það skipti miklu máli.
Staðreyndin er sú að kolmunnaveiðar Barkar á þessum árum ollu vonbrigðum. Hlé var gert á þeim eftir tilraunina 1973 og þær ekki reyndar á ný fyrr en árið 1976. Á árunum 1976-1982 var skipið sent til kolmunnaveiða á hverju ári að undanskildu árinu 1979. Auk þess sem afli var yfirleitt tregur var verðlagningin á kolmunnanum ekki til að hvetja til veiðanna. Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust ekki af neinum krafti fyrr en löngu síðar.
Árum saman gekk erfiðlega að finna Berki nægjanleg verkefni og stóð reyndar til að selja skipið árið 1976 en ekki kom þó til þess. Eilíft var verið að leita að verkefnum sem hentaði og lagði Börkur meðal annars stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Síðla sumars 1975 var Börkur sendur til loðnuveiða í Barentshafi en fyrr um árið hafði hann veitt hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þá má geta þess að um árabil var skipið nýtt til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu. Með tímanum jukust verkefni Barkar og að því kom að unnt var að halda honum út til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta hvers árs.
Ekki voru gerðar miklar breytingar á Berki fyrstu 25 árin sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar ef undan eru skilin vélaskipti árið 1979 en þá fékk skipið öflugri vél. Í janúarmánuði 1998 kom Börkur hins vegar til heimahafnar frá Póllandi þar sem gerðar höfðu verið gagngerar breytingar á skipinu. Það var lengt um tæplega 15 metra, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Eins var allur spilbúnaður endurnýjaður, skipið útbúið til flotvörpuveiða og kælikerfi sett í lestar. Burðargetan að afloknum breytingum var 1.800 tonn. Staðreyndin var sú að eftir breytingarnar var ekki mikið eftir af hinu upphaflega skipi. Árið 1999 hélt Börkur síðan í vélarskipti til Englands og var þá sett í hann 7.400 hestafla vél.
Árið 2012 festi Síldarvinnslan kaup á nýjum Berki og fékk gamli Börkur þá nafnið Birtingur. Bar hann það nafn þar til hann var seldur úr landi árið 2016. Kaupandi skipsins var pólskt fyrirtæki og var því gefið nafnið Janus. Janus hefur landað kolmunna á Íslandi á þessu ári og hefur Norðfirðingum þótt vænt um að sjá skipið þegar það hefur komið til löndunar í Neskaupstað.
Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Því má segja að kaup Síldarvinnslunnar á „stóru“ loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973 hafi reynst vera gæfuspor fyrir fyrirtækið.