Frá undirritun kaupsamningsins í gær. Ljósm. Axel Ísaksson

Í gær var undirritaður samningur um kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf. í Grindavík. Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar Síldarvinnslunnar og Samkeppniseftirlitsins. Helstu þættir samningsins eru eftirfarandi:

  • Síldarvinnslan kaupir allt hlutafé Vísis.
  • Kaupverð hlutafjárins er 20 milljarðar króna.
  • Vaxtaberandi skuldir Vísis nema um 11 milljörðum þannig að viðskiptin nema alls um 31 milljarði króna.
  • Greitt er fyrir hlutinn með reiðufé (30% kaupverðs) og með hlutabréfum í Síldarvinnslunni (70% kaupverðs). Í viðskiptunum er miðað við meðaltalsgengi hlutabréfa Síldarvinnslunnar síðustu fjórar vikur sem er 95,93.
  • Með þessum viðskiptum verða seljendur á meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni.
  • Lagt verður til við hluthafafund Síldarvinnslunnar að stjórn félagsins fái heimild til að auka hlutafé og að hluthafar falli frá áskriftarrétti sínum.
  • Tekið er fram í samningnum að höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verði hjá Vísi í Grindavík.
  • Pétur Hafsteinn Pálsson verður áfram framkvæmdastjóri Vísis.

Bæði kaupendur og seljendur eru þeirrar skoðunar að þessi viðskipti styrki stöðu beggja félaga til framtíðar en Vísir mun starfa sem dótturfélag Síldarvinnslunnar. Áhersla verður lögð á að efla sölu- og markaðsstarf félaganna og stefnt er að því að hámarka verðmæti framleiðslunnar.

Vísir hf. er fjölskyldufyrirtæki sem hefur lagt áherslu á ábyrgar veiðar og hátæknivinnslu. Félagið gerir út fjögur skip í aflamarkskerfi og tvo báta í krókaaflamarki. Fyrirtækið rekur saltfiskvinnslu og mjög tæknivædda bolfiskvinnslu í Grindavík auk þess að eiga erlend dótturfélög. Á fiskveiðiárinu 2022 – 2023 verða aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn. Ársverk á síðasta ári voru um 250, ársveltan var rúmlega 10 milljarðar króna og hagnaður rúmlega 800 milljónir króna.

Verði þessi viðskipti staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar og Samkeppniseftirlitinu er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar verði lítillega yfir gildandi viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum mörkum. Veiðiheimildir í uppsjávartegundum, einkum loðnu, eru afar breytilegar á milli ára og hafa því óhjákvæmilega áhrif á kvótaþak hvers árs. Enn ríkir óvissa um úthlutanir í aflaheimildum uppsjávartegunda á næsta ári.

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segist vera sannfærður um að með þessum viðskiptum styrkist bæði Síldarvinnslan og Vísir. Starfsemi félaganna eigi kost á því að verða öflugri og samkeppnishæfni þeirra aukist. Hann minnir á að sjávarútvegur sé alþjóðleg atvinnugrein og mikilvægt sé að byggja upp öflug fyrirtæki hér á landi til að standast harða samkeppni. Þá telur hann mikil tækifæri felast í vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á Reykjanesi á komandi tímum.