Listi Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki hefur verið birtur í fjórtánda sinn. Á listanum eru 1006 fyrirtæki eða 2,5% fyrirtækja í landinu. Síldarvinnslan er á listanum eins og hún hefur verið frá árinu 2012. Í flokki stórra fyrirtækja er Síldarvinnslan á meðal þeirra efstu. Þegar metið er hvort fyrirtæki er framúrskarandi er meðal annars horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma og hvort fyrirtækið fari að lögum í starfsemi sinni. Þá er einnig til dæmis horft á skuldir, eignir og eiginfjárhlutfall, rekstrarafkomu og tengsl fyrirtækis við nærumhverfi sitt. Að þessu sinni eru 148 ný fyrirtæki á listanum en 121 hafa dottið út af honum frá því í fyrra. Heldur færri sjávarútvegsfyrirtæki eru á listanum í ár en voru á síðasta ári.