Samkvæmt mælingum Creditinfo töldust 624 fyrirtæki á Íslandi vera framúrskarandi á árinu 2016. Fyrirtækin þurfa að uppfylla skýr skilyrði til að komast á lista framúrskarandi fyrirtækja en alls kannaði Creditinfo stöðu þrjátíu og sex þúsund fyrirtækja við gerð hans. 
 

Það kemur fáum á óvart að Síldarvinnslan er á meðal hinna framúrskarandi fyrirtækja og reyndar er hún í áttunda sæti  á árinu 2016. Einnig hefur Creditinfo birt lista yfir þau fyrirtæki sem hafa verið í topp 10 á listanum síðastliðin fimm ár og þar er Síldarvinnslan í fjórða sæti. Þetta er árangur sem verður að teljast afar góður og geta starfsmenn Síldarvinnslunnar svo sannarlega verið stoltir af honum.

Eins og fyrr greinir er Síldarvinnslan í áttunda sæti á umræddum lista en á listanum  má einnig finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar eins og Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. á Akureyri, Runólf Hallfreðsson ehf. á Akranesi, G. Skúlason vélaverkstæði ehf. í Neskaupstað og Fjarðanet hf. í Neskaupstað.