Listi Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki var birtur í þrettánda sinn sl. miðvikudag. Á listanum eru 875 fyrirtæki eða um 2% fyrirtækja á landinu. Síldarvinnslan er á listanum eins og hún hefur verið frá árinu 2012. Í flokki stórra fyrirtækja er Síldarvinnslan í fimmta sæti og efst sjávarútvegsfyrirtækja í þeim flokki.

Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki eigi að komast á lista hinna framúrskarandi er ýmislegt tekið til skoðunar. Til dæmis þarf ársreikningi að hafa verið skilað á réttum tíma, rekstrarhagnaður þarf að hafa verið sl. þrjú ár, ársniðurstaða jákvæð, rektstrartekjur að lágmarki 50 milljónir kr. og eiginfjárhlutfall að lágmarki 20%. Þá þurfa stærri fyrirtæki að svara spurningum um samfélagslega ábyrgð.