Börkur nýkominn til heimahafnar í Neskaupstað í fyrsta sinn, 10. feb. 1973. Ljósm. Guðmundur SveinssonÍ þessum sögulega þætti verður í stuttu máli gerð grein fyrir starfsemi fyrirtækisins á árinu 1973. Hafa verður í huga að á síldarárunum svonefndu lauk á árunum 1967-1968 og við það breyttust mjög öll starfsskilyrði Síldarvinnslunnar. Á næstu árum var farið að huga að breytingum á starfseminni og eins reyndist nauðsynlegt að endurnýja skipastól fyrirtækisins því skipin sem höfðu verið í eigu þess frá upphafi hentuðu fyrst og fremst til síldveiða. Fyrstu fjögur skipin sem Síldarvinnslan eignaðist voru öll seld á árunum 1970-1972 en þess í stað hóf fyrirtækið skuttogaraútgerð með kaupunum á Barða NK árið 1970. Árið 1973 ber þess mjög merki að þessar breytingar eru enn að ganga yfir.

 

  • Hinn 10. febrúar kom „Stóri-Börkur“ í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Börkur var keyptur til að leysa af hólmi síldveiðiskipin sem fyrirtækið hafði átt en hann var stærri og burðarmeiri en þau. Það voru einkum loðnu- og kolmunnaveiðar sem hafðar voru í huga við kaupin á skipinu. Á loðnuvertíðinni 1972 þurftu veiðiskipin að sigla langan veg með aflann til Neskaupstaðar og þá þóttu skip fyrirtækisins of lítil. Sigling með fullfermi í 14-18 tíma í misjöfnum vetrarveðrum var beinlínis hættuleg á þessum skipum að mati manna og því var nauðsynlegt að festa kaup á stóru og burðarmiklu skipi sem gæti flutt aflann með öruggum hætti til heimahafnar. Að auki var talið að kolmunnaveiði gæti átt framtíð fyrir sér en til að geta lagt stund á hana þyrfti stórt skip.Lykilatriðið hvað varðaði þessi skipakaup var að tryggja fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hráefni til vinnslu í eins ríkum mæli og mögulegt var.
  • Innan við mánuði eftir að „Stóri-Börkur“ kom í fyrsta sinn til heimahafnar, eða hinn 2. mars, sigldi skuttogarinn Bjartur NK í fyrsta sinn inn Norðfjörð. Bjartur var smíðaður í Japan og í upphafi var ætlunin að hann myndi leysa fyrsta skuttoga fyrirtækisins, Barða NK, af hólmi. Útgerðin á Barða hafði gengið vel og höfðu menn öðlast tröllatrú á skuttogaraútgerð. Þegar leið á árið 1972 hætti stjórn Síldarvinnslunnar hins vegar við að selja Barða þó að Bjartur bættist í flotann. Að athuguðu máli var ekki talin vanþörf á að tveir togarar öfluðu fiskvinnslustöðvum fyrirtækisins hráefnis. 
  • Nýi Börkur hélt til loðnuveiða fljótlega eftir heimkomuna en alls lögðu sex Norðfjarðarbátar stund á loðnuveiðar á vertíðinni. Alls bárust 38.366 tonn af loðnu til Neskaupstaðar á vertíðinni og var það mesti afli sem þar hafði verið landað á loðnuvertíð. Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar framleiddi 6.217 tonn af loðnumjöli þetta ár og 2.269 tonn af lýsi.
  • Á loðnuvertíðinni 1971 hafði loðna verið fryst til útflutnings í fyrsta sinn hjá Síldarvinnslunni og þar með var manneldisvinnsla á loðnu hafin hjá fyrirtækinu. Á fyrstu vertíðinni voru fryst 104 tonn af loðnu en á vertíðinni 1973 voru fryst 314 tonn.
  • Hinn 8. maí 1973 hélt Börkur til kolmunnaveiða í fyrsta sinn og þóttu það nokkur tímamót. Ekki varð vart við mikinn kolmunna í veiðiferðinni en hinn 19. maí kom skipið með fyrsta kolmunnafarminn til heimahafnar, tæplega 200 tonn. Ekki rættust þær vonir sem bundnar voru við kolmunnaveiðarnar á þessum tíma. Reyndi Börkur bæði að veiða með flotvörpu og hringnót en aðeins fiskuðust um 240 tonn í vörpuna og og um 60 tonn í hringnótina. Heldur þótti þetta dapurlegt upphaf og hélt skipið ekki til kolmunnaveiða næstu tvö árin. Segja má að Börkur hafi ekki náð verulegum árangri á sviði kolmunnaveiðanna fyrr en árið 1977.
  • Þegar skuttogarar fyrirtækisins voru orðnir tveir reyndist mikil þörf á að gera umbætur á hraðfrystistöð fyrirtækisins. Í ársbyrjun 1973 var lokið við miklar endurbætur á stöðinni; keypt var ný flökunarvél og ýmis vélbúnaður endurnýjaður auk þess sem bætt var við borðum í vinnslusal þannig að þau urðu 13 að tölu. Þá voru einnig gerðar miklar umbætur á kaffistofu og hreinlætisaðstöðu starfsfólksins. Alls voru framleidd 1.961 tonn af frystum bolfiski í hraðfrystistöðinni árið 1973. 
  • Niðurlagningarverksmiðja Síldarvinnslunnar var einungis rekin yfir „dauða tímann“ (vetrarmánuðina) árið 1973 og var það fyrst og fremst gert til að koma í veg fyrir atvinnuleysi hjá konum. Niðurlagningarverksmiðjan hafði hafið starfsemi snemma árs 1971 en halli verið á rekstrinum og því engin áhersla lögð á kraftmikla starfsemi. Helsta vandamál verksmiðjunnar var ótryggir erlendir markaðir fyrir framleiðsluvöruna en eins var framleitt fyrir innanlandsmarkað í litlum mæli. Þegar bolfiskafli jókst með tilkomu annars skuttogara var ekki eins mikil þörf fyrir niðurlagningarverksmiðjuna og áður hafði verið.
  • Árið 1973 annaðist Síldarvinnslan rekstur Dráttarbrautarinnar hf. í Neskaupstað samkvæmt samningi sem tók gildi sumarið 1972. Dráttarbrautin rak vélaverkstæði, bílaverkstæði og slipp.
  • Árið 1973 ríkti deyfð á sviði byggingaiðnaðar í Neskaupstað. Til að tryggja að íbúðarhúsabyggingar hæfust á ný stofnuðu Síldarvinnslan, Dráttarbrautin og bæjarsjóður Neskaupstaðar Byggingafélag Neskaupstaðar. Framkvæmdir á vegum félagsins hófust árið 1974.