Í þessum sögulega þætti verður stuttlega fjallað um starfsemi fyrirtækisins á árinu 1968. Hafa verður í huga að á árinu 1965 jókst mjög fjölbreytni þeirrar starfsemi sem Síldarvinnslan sinnti. Það ár hóf fyrirtækið útgerð með eigin skipum og festi einnig kaup á þeim framleiðslutækjum sem Samvinnufélag útgerðarmanna hafði byggt upp í Neskaupstað. Á meðal þeirra framleiðslutækja voru hraðfrystihús og síldarsöltunarstöð.
  • Síldarsöltun á söltunarstöð Síldarvinnslunnar undir lok síldarævintýrisins.  Ljósm. í eigu Skjala- og myndasafns NorðfjarðarÁ árinu 1968 var hið svonefnda síldarævintýri að fjara út. Afgerandi breyting varð á hegðun síldarinnar og minnkaði veiðin mikið. Í lok júlí hélt síldin sig langt norður í Dumbshafi, enn lengra frá landinu en árið áður. Um þetta leyti var svo komið að um 1.000 mílur voru frá miðunum til Íslandsstranda. Um sumarið og haustið héldu Norðfjarðarbátar til síldveiða í Norðursjó en þær veiðar höfðu hafist árið áður. Þegar hausta tók fannst síld nær landinu en vegna stöðugra ógæfta gengu veiðar illa. Þegar síldin kom síðan á vetursetustöðvarnar í öndverðum október þétti hún sig ekki og var því vart veiðanleg. Eftir þetta má segja að norsk-íslenski síldarstofninn, sem hafði verið helsta auðsuppspretta Austfirðinga um árabil, hyrfi úr sögunni um langt skeið.
  • Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók einungis á móti 2.938 tonnum af síld árið 1968. Úr hráefninu var framleitt 590 tonn af mjöli og 426 tonn af lýsi. Þetta sumar voru alls saltaðar 23.256 tunnur af síld í Neskaupstað á sex söltunarstöðvum. Söltunarstöðvarnar voru Sæsilfur, Drífa, Máni, Nípa og Naustaver auk söltunarstöðvar Síldarvinnslunnar sem saltaði 7.047 tunnur. Gera má ráð fyrir að um 250 manns hafi verið ráðnir til starfa á síldarsöltunarstöðvunum sex.
  • Vegna minnkandi síldveiði var stærstu bátunum í flota Norðfirðinga í auknum mæli beint á bolfiskveiðar og hóf þá bolfiskframleiðsla hraðfrystihússins að aukast. Árið 1968 voru framleidd 887 tonn af bolfiski til útflutnings í hraðfrystihúsinu.
  • Fyrst eftir að Síldarvinnslan festi kaup á eignum Samvinnufélags útgerðarmanna var lítið saltað af fiski í Neskaupstað. Segja má að þetta hafi breyst á vetrarvertíðinni 1968 en þá lögðu fjórir Norðfjarðarbátar stund á netaveiðar fyrir Suðurlandi og lögðu upp hjá Síldarvinnslunni. Öfluðu þeir svo vel að ekki hafðist undan að flaka og frysta fiskinn og var því gripið til þess ráðs að hefja saltfiskverkun í stærri stíl en áður hafði þekkst hjá fyrirtækinu.
  • Birtingur NK á landleið með loðnufarm á vertíðinni 1968.  Ljósm. Magni Kristjánsson

     

    Loðnulöndun úr Birtingi NK.  Ljósm. Hjörleifur Guttormsson

    Hinn 21. febrúar 1968 var loðnu til bræðslu í fyrsta sinn landað í Neskaupstað. Það var Börkur NK sem þá kom með fullfermi en Birtingur NK lagði einnig stund á loðnuveiðar á vertíðinni. Alls bárust rúmlega 7.700 tonn af loðnu til verksmiðjunnar á þessari vertíð og kom allur aflinn frá miðunum sunnan við landið. Eftir að nýting loðnunnar hófst á Austfjörðum fóru menn að velta því fyrir sér hvort loðnan gæti að einhverju leyti komið í stað síldarinnar sem var að hverfa en þá þyrftu líka veiðarnar helst að hefjast fyrr, eða þegar loðnan gengi suður með Austfjörðum.

  • Árið 1968 gerði Síldarvinnslan út fjögur skip: Barða NK, Bjart NK, Börk NK og Birting NK. Öll voru þessi skip smíðuð með síldveiðar í huga á árunum 1964-1967 og kom fljótt í ljós að þau hentuðu misjafnlega til annarra veiða. Þess var því ekki langt að bíða að umræður hæfust um endurnýjun á flota fyrirtækisins og í stað síldarskipanna yrðu keypt skip sem hentuðu betur til þeirra veiða sem stundaðar yrðu í framtíðinni.