Hér á eftir verður skyggnst 50 ár aftur í tímann og fjallað lítillega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1970. Þá voru 13 ár liðin frá stofnun Síldarvinnslunnar en félagið var upphaflega stofnað í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.

  • Engin síld var unnin í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1970 en þar var hins vegar unnin loðnaEngin síld var unnin í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1970 en þar var hins vegar unnin loðnaSíldarævintýrinu svonefnda var lokið árið 1970 og barst engin síld til vinnslu í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar það ár. Síldveiðiskip fyrirtækisins höfðu haldið til síldveiða á Hjaltlandsmiðum árið 1969 og söltuðu aflann um borð. Alls lögðu skipin upp 2425 tunnur af sjósaltaðri Hjaltlandssíld það árið en engin slík síld barst til Síldarvinnslunnar árið 1970. Aftur á móti var nokkuð saltað af svonefndri Suðurlandssíld árið 1970.
  • Síldarvinnslan hafði fest kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1965, þar á meðal hraðfrystihúsi. Árið 1969 hófust endurbætur á hraðfrystihúsinu í þeim tilgangi að auka framleiðslugetu og hagkvæmni. Fiskimjölsverksmiðja hússins var lögð niður og fiskmóttaka stækkuð mikið, auk þess sem vélakostur var aukinn. Árið 1970 framleiddi hraðfrystihúsið 1370 tonn af frystum afurðum.
  • Saltfiskverkun hófst hjá Síldarvinnslunni árið 1968 og var komið upp aðstöðu til verkunarinnar í einni af mjölskemmum fiskimjölsverksmiðjunnar. Fljótlega var farið að vélvæða verkunina og á árinu 1970 voru flutt út frá Neskaupstað 233 tonn af óverkuðum saltfiski og tæp 40 tonn af verkuðum. Þá hóf Síldarvinnslan einnig skreiðarverkun í dálitlum mæli árið 1968 og árið 1970 voru fluttir út 585 pakkar af skreið frá Neskaupstað. Skreiðarhjallarnir voru inni á Sandi fyrir botni Norðfjarðar.
  • Vinnslusalur frystihúss Síldarvinnslunnar árið 1970. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonVinnslusalur frystihúss Síldarvinnslunnar árið 1970. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonÞann 21. febrúar árið 1968 var loðnu landað í fyrsta sinn til vinnslu í Neskaupstað. Loðnan var unnin í mjöl og lýsi í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Árið 1970 tók verksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 19.123 tonnum af loðnu og framleiddi 3419 tonn af loðnumjöli og 730 tonn af loðnulýsi. Framleiðsla á frystri loðnu til útflutnings hófst ekki fyrr en árið 1971.
  • Atvinnuástand var erfitt í Neskaupstað eftir hvarf síldarinnar og var leitað ýmissa leiða til að bæta það. Aukin áhersla á verkun saltfisks og skreiðar var til dæmis liður í því. Í nóvembermánuði 1969 fól stjórn Síldarvinnslunnar framkvæmdastjóra fyrirtækisins að athuga með hvaða hætti það gæti enn frekar stuðlað að lausn atvinnuleysisvandans t.d. með því að kanna möguleikann á því að koma upp niðurlagningaverksmiðju. Fljótlega var tekin ákvörðun um að koma upp verksmiðjunni og í ársbyrjun 1970 lágu fyrir teikningar og kostnaðaráætlun, en ákveðið hafði verið að byggja ofan á austasta hluta fiskvinnslustöðvarinnar og koma verksmiðjunni fyrir þar. Í maímánuði hófust framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar og var hún fokheld í ágústmánuði. Í desembermánuði 1970 komu síðan vélarnar í verksmiðjuna og var uppsetningu þeirra lokið í janúarmánuði 1971. Framleiðsla í niðurlagningaverksmiðjunni hófst 1. febrúar 1971. Fyrst var lagður niður sjólax en síðar á árinu hófst framleiðsla á gaffalbitum.
  • Birtingur NK var eitt Síldarvinnsluskipanna sem lagði stund á loðnuveiðar árið 1970. Ljósm. Snorri SnorrasonBirtingur NK var eitt Síldarvinnsluskipanna sem lagði stund á loðnuveiðar árið 1970. Ljósm. Snorri SnorrasonGrundvallarbreyting varð á skipakosti Síldarvinnslunnar á árinu 1970. Lengst af á því ári voru fjögur skip í eigu fyrirtækisins og voru það allt skip sem smíðuð höfðu verið með síldveiðar í huga, en á árinu var tekin ákvörðun um að festa kaup á skuttogara og selja eitt síldarskipanna. Sumarið 1970 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að kaupa þriggja ára gamlan skuttogara í Frakklandi. Togarinn var afhentur fyrirtækinu hinn 4. nóvember og kom til nýrrar heimahafnar í Neskaupstað 14. desember.  Töluverðar umbætur voru gerðar á skipinu eftir að það kom til landsins og hóf það síðan veiðar 11. febrúar 1971. Togarinn fékk nafnið Barði og vöktu kaupin á honum mikla athygli enda var um að ræða fyrsta skipið í eigu Íslendinga með öllum hefðbundnum skuttogarabúnaði. Skuttogaraöld var gengin í garð.

 

Vinnslusalur niðurlagningaverksmiðju Síldarvinnslunnar. Verksmiðjunni var komið upp árið 1970 en vinnsla hófst snemma árs 1971. Ljósm. Guðmundur SveinssonVinnslusalur niðurlagningaverksmiðju Síldarvinnslunnar. Verksmiðjunni var komið upp árið 1970 en vinnsla hófst snemma árs 1971. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

Síldarvinnslan festi kaup á skuttogaranum Barða árið 1970, en hann var fyrsti skuttogari landsmanna.Ljósm. Guðmundur SveinssonSíldarvinnslan festi kaup á skuttogaranum Barða árið 1970, en hann var fyrsti skuttogari landsmanna.Ljósm. Guðmundur Sveinsson