Hér verður skyggnst hálfa öld aftur í tímann og fjallað stuttlega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1973. Þá voru 16 ár liðin frá stofnun fyrirtækisins en það var stofnað árið 1957 fyrst og fremst í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.
- Starfsemi Síldarvinnslunnar varð fjölbreyttari með tímanum. Árið 1965 hóf fyrirtækið útgerð sem átti síðan eftir að eflast mikið. Sama ár festi Síldarvinnslan kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna, þar á meðal hraðfrystihúsi. Með kaupunum hóf Síldarvinnslan að sinna fiskverkun almennt en ekki einungis vinnslu síldar. Á árinu 1969 var unnið að miklum endurbótum á hraðfrystihúsinu og í kjölfar þeirra festi fyrirtækið kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970 (Barði). Árið 1973 voru framleidd 1.961 tonn af af frystum bolfiski í hraðfrystihúsinu.
- Loðna var fyrst fryst hjá Síldarvinnslunni árið 1971. Árið 1973 frysti fyrirtækið 314 tonn af loðnu.
- Saltfiskverkun hafði hafist á vegum Síldarvinnslunnar árið 1968 og var þá komið upp aðstöðu til verkunarinnar í einni af mjölskemmum fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins. Fljótlega var hafist handa við að vélvæða verkunina. Árið 1973 flutti Síldarvinnslan út 705 tonn af óverkuðum saltfiski og rúmlega 70 tonn af verkuðum.
- Síldarvinnslan reisti niðurlagningarverksmiðju á árunum 1970 – 1971. Verksmiðjan hóf starfsemi snemma árs 1971 en reksturinn reyndist erfiður og markaðir fyrir framleiðsluvöruna ótryggir. Árið 1973 jókst áhersla á bolfiskveiðar og bolfiskvinnslu innan fyrirtækisins og það árið var niðurlagningarverksmiðjan nánast ekkert nýtt.
- Eins og fyrr greinir festi Síldarvinnslan kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970 og jókst þá mjög áherslan á bolfiskveiðar hjá fyrirtækinu. Þegar á árinu 1971 var hafist handa við að kanna möguleikann á því að fyrirtækið eignaðist annan togara. Niðurstaðan varð sú að fyrirtækið festi kaup á togara sem smíðaður var í Japan og kom hann fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 2. mars 1973 (Bjartur). Þar með voru skuttogarar fyrirtækisns orðnir tveir.
- Árið 1973 tók fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 38.366 tonnum af loðnu. Verksmiðjan framleiddi 6.217 tonn af mjöli og 2.269 tonn af lýsi á árinu. Loðnu var í fyrsta sinn landað til vinnslu í Neskaupstað 21. febrúar árið 1968 og var því nokkur reynsla komin á loðnuvinnsluna.
- Árið 1973 festi Síldarvinnslan kaup á stóru loðnuskipi. Skipinu var gefið nafnið Börkur og vegna þess hve stórt það þótti var það venjulega nefnt Stóri – Börkur. Æskilegt þótti að fyrirtækið eignaðist stórt loðnuskip sem hentaði til að sigla langan veg með fullfermi í misjöfnum veðrum. Kaupin á Berki vöktu athygli ekki síst vegna þess að hann gat flutt 1.000 tonna farm að landi. Auk loðnuveiða var ráðgert að Börkur legði stund á kolmunnaveiðar og hóf hann þær vorið 1973.
- Síldveiðiskip Norðfirðinga, þar á meðal Stóri – Börkur, lögðu stund á síldveiðar í Norðursjó árið 1973 en þær veiðar hófust hjá norðfirskum skipum árið 1967.