Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar eins og hún leit úr árið 1963. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonStofnfundur Síldarvinnslunnar hf. Í Neskaupstað var haldinn hinn 11. desember árið 1957. Tilgangur félagsins var að reisa og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað. Síldarverksmiðjan var reist á árinu 1958 og hinn 17. júlí það ár hófst móttaka síldar til mjöl- og lýsisvinnslu. Þar með var starfsemi Síldarvinnslunnar á sviði fiskvinnslu hafin.

Hér á heimasíðunni verður annað veifið veitt innsýn í starfsemi fyrirtækisins á ýmsum tímum. Í þessum pistli verður getið um nokkra þætti starfseminnar fyrir réttum 50 árum eða á árinu 1963. Sumarið 1963 tók síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 34.220 tonnum af síld til vinnslu. Í verksmiðjunni voru framleidd 6.840 tonn af mjöli og 5.130 tonn af lýsi.

 • Ýmsar umbætur voru gerðar á verksmiðjunni þetta sumar. Til dæmis var þriðja þurrkaranum komið fyrir og þurfti að byggja sunnan við verksmiðjuhúsið til að koma honum fyrir. Jafnframt var komið upp sjálfvirkri kyndingu á þurrkara verksmiðjunnar sem auðveldaði alla vinnu við þurrkun mjölsins. Þá voru einnig keyptar tvær alsjálfvirkar lýsisskilvindur.
 • Á þessu ári var reist 50 metra langt mjölgeymsluhús áfast því sem fyrir var en í ljós hafði komið að mikil þörf var fyrir aukið rými til geymslu á síldarmjöli.
 • Tilkoma síldarverksmiðjunnar var forsenda þess að síldarsöltun efldist í Neskaupstað.  Sumarið 1963 störfuðu fjórar síldarsöltunarstöðvar í bænum og söltuðu þær samtals 56.375 tunnur. Stöðvarnar báru nöfnin Sæsilfur, Drífa, Máni og Ás.
 • Bjartur NK og Barði NK voru fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. v.Linden   Barði NK eftir ásiglinguna á Elbufljóti. Ljósm. í eigu Skjala- og myndasafns Norðfjarðar

  Á fundi í stjórn Síldarvinnslunnar hinn 2. desember 1963 var ákveðið að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samþykkt var að festa kaup á 264 lesta fiskiskipi sem smíðað yrði í Austur-Þýskalandi og gert var ráð fyrir að hið nýja skip yrði afhent eigendunum í nóvember 1964. Á sama fundi var rætt með hvaða hætti Síldarvinnslan gæti aðstoðað við öflun hráefnis fyrir hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna þennan vetur og var samþykkt að fyrirtækið tæki Gullfaxa NK á leigu frá áramótum og til maímánaðar 1964. Hið nýja skip sem Síldarvinnslan lét smíða fékk nafnið Barði NK 120. Þegar Barði var í reynslusiglingu á Elbufljóti 20. desember 1964 vildi ekki betur til en svo að flutningaskip sigldi á hann og skemmdi mikið en engin teljandi meiðsl urðu á mönnum. Verulegan tíma tók að lagfæra skemmdirnar og
  því kom Barði ekki til heimahafnar í fyrsta sinn fyrr en 5. mars 1965. Í októbermánuði 1964 hafði stjórn Síldarvinnslunnar ákveðið að láta smíða annað skip fyrir fyrirtækið. Um var að ræða systurskip Barða sem hlaut nafnið Bjartur NK 121. Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 14. maí 1965.