Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar eins og hún leit út árið 1960. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar eins og hún leit út
árið 1960. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
Hér á eftir verður horft 60 ár aftur í tímann og fjallað lítillega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1960. Árið 1960 var Síldarvinnslan að slíta barnsskónum en félagið var stofnað árið 1957 í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar. Þegar var ráðist í að byggja síldarverksmiðjuna og hóf hún starfsemi sumarið 1958.
 
    • Alls tók verksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 13.245 lestum af síld til vinnslu sumarið 1960. Framleidd voru 2.121 tonn af mjöli og 2.356 tonn af lýsi. Síldinni, sem verksmiðjan tók til vinnslu, var landað við bryggjuna sem var framan við hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna. Frá bryggjunni lágu síðan færibönd sem fluttu síldina í þrær verksmiðjunnar. Ekki var byggð sérstök löndunarbryggja fyrir verksmiðjuna fyrr en árið 1962.
    • Fyrstu árin sem verksmiðja Síldarvinnslunnar var starfrækt var árlegur starfstími stuttur. Yfirleitt hófst móttaka síldar í júnímánuði og vinnslu lauk oftast í lok ágúst. Starfstíminn var því einungis 10-12 vikur. Þetta breyttist ekki fyrr en árið 1964 þegar haustveiðar hófust á síldarmiðunum úti fyrir Austfjörðum.
    • Í upphafi var þróarrými verksmiðjunnar 10.000 mál og var það ekki aukið fyrr en árið 1962. Þá var geymslurými fyrir afurðir afar takmarkað. Í fyrstu var samið við Olíuverslun Íslands um afnot af tanki sem var í eigu hennar fyrir geymslu á lýsi en á árinu 1959 festi Síldarvinnslan kaup á steintankinum fyrir utan hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna og hóf að nýta hann undir lýsi. Geymsla á síldarmjöli var einnig vandamál. Fyrstu tvö árin var mjölið geymt í bogaskemmu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar og í húsum vítt og breitt um bæinn en árið 1960 var reist sérstakt mjölgeymsluhús vestan við verksmiðjuhúsið og áfast því.

Síldarsöltun á söltunarstöð Sæsilfurs. Ljósm. Björn BjörnssonSíldarsöltun á söltunarstöð Sæsilfurs.
Ljósm. Björn Björnsson

    • Í upphafi ríktu nokkur vonbrigði með afköst verksmiðjunnar. Gert hafði verið ráð fyrir að hún gæti unnið allt að 2.400 málum síldar á sólarhring en í ljós kom eftir vertíðina 1959 að meðalafköst hennar hefðu einungis verið 1.360 mál. Gerð var úttekt á verksmiðjunni eftir þessa vertíð og var niðurstaða hennar sú að verksmiðjan ætti að geta afkastað 2.000-2.200 málum á sólarhring ef hráefnið væri eins og best yrði á kosið. Þá kom fram að brýn nauðsyn væri að auka rými fyrir lýsi inni í verksmiðjunni og tryggja aukin afköst mjölkvarnar og mjölblásara. Í kjölfar úttektarinnar var ráðist í fyrstu umbætur á verksmiðjunni fyrir vertíðina 1960.
    • Aðstaða til síldarsöltunar í Neskaupstað gjörbreyttist til batnaðar með tilkomu síldarverksmiðjunnar, en það hafði háð síldarsöltuninni að skip gátu ekki losað þann afla í síldarverksmiðju sem ekki reyndist söltunarhæfur. Fyrir tilkomu síldarverksmiðjunnar var unnt að bræða síld í lítilli fiskimjölsverksmiðju Samvinnufélags útgerðarmanna en einungis í sáralitlu magni. 

Gullfaxi NK kemur að landi með síldarfarm sumarið 1960. Ljósm. Björn BjörnssonGullfaxi NK kemur að landi með síldarfarm sumarið 1960.
Ljósm. Björn Björnsson

    • Árið 1960 var einungis ein síldarsöltunarstöð starfrækt í Neskaupstað. Það var söltunarstöð Sæsilfurs hf. Sumarið 1960 voru saltaðar 4.578 tunnur á stöðinni. Eftir þetta fjölgaði síldarsöltunarstöðvunum í bænum. Árið 1961 voru þær tvær og ári síðar fjórar en flestar urðu þær sex á síld sarárunum svonefndu.
    • Alls voru þrettán Norðfjarðarbátar gerðir út til síldveiða árið 1960. Flestir bátanna voru af stærðinni 60-90 lestir en tveir þeirra voru nýir og stærri og höfðu báðir bæst í flotann árið áður. Þetta voru Stefán Ben, 147 lesta skip smíðað í Noregi og Hafþór, 249 lesta skip smíðað í Austur-Þýskalandi.