● Í aprílmánuði 1989 var aðalfundur Síldarvinnslunnar haldinn. Á honum kom fram að hagnaður hefði orðið af rekstri fyrirtækisins á árinu 1988 og þótti það miklum tíðindum sæta. Hagnaðurinn nam 11 milljónum króna. Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri þakkaði hagnaðinn góðu starfsfólki, fjölþættum rekstri, aðhaldi á sviði fjárfestinga og viðhalds og þvi að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir neinum meiriháttar óhöppum á árinu. Finnbogi benti á að uppsafnað tap fyrirtækisins væri um 530 milljónir króna þannig að það þyrfti 50 ár með samsvarandi hagnaði og á árinu 1988 til að eyða hinu uppsafnaða tapi.
● Lengi hafði verið rætt um framkvæmdir við loðnuverksmiðju félagsins sem myndu leiða til þess að hún yrði reyklaus. Stefnt var að því að framkvæmdir við verksmiðjuna hæfust árið 1989 og hún yrði reyklaus á loðnuvertíð haustið 1990. Kostnaður við breytingar á verksmiðjunni var álitinn vera 150 milljónir króna og helsta óvissan fólst í því hvort lán fengist til framkvæmdanna.
● Heildarvelta Síldarvinnslunnar var tæpar 1.900 milljónir króna á árinu 1989. Hagnaður varð fyrir afskriftir og fjármagnskostnað og nam hann 210 milljónum. Eftir að tekið hafði verið tillit til afskrifta, fjármagnskostnaðar og hagnaðar af sölu eigna var hins vegar tap á rekstrinum og nam það 35,5 milljónum króna.
● Á árinu 1989 varð hagnaður af botnfiskveiðum og botnfiskvinnslu en tap af rekstri loðnuskipa og loðnuverksmiðju og mátti rekja það til loðnubrests um haustið. Fyrirtækið gerði á þessu ári út uppsjávarskipið Börk, fjölveiðiskipið Beiti og togarana Barða, Bjart og Birting.
● Á árinu 1989 störfuðu að meðaltali 420 manns hjá Síldarvinnslunni.
● Síldarvinnslan saltaði í 7.619 tunnur af síld haustið 1989 og 699 tonn af síld voru fryst á árinu.
● Á árinu 1989 fjárfesti Síldarvinnslan fyrir 260 milljónir króna og var mest fjárfest í fiskiskipum. Stærsta fjárfestingin fólst í kaupunum á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni frá Ísafirði en hann fékk nafnið Barði og leysti eldri togara með því nafni af hólmi. Í Júlíusi Geimundssyni var búnaður til heilfrystingar á fiski. Á þessu ári framleiddi Síldarvinnslan 1.153 tonn af sjófrystum fiski.
● Á loðnuvertíð um veturinn fékkst leyfi til að setja loðnu í grunn gömlu loðnuverksmiðjunnar eins og gert hafði verið áður. Heilbrigðisnefnd Neskaupstaðar gaf leyfi til að nota grunninn sem þró en tók fram að þetta yrði í síðasta sinn sem það yrði leyft. Með ákveðnum ráðstöfunum var þó einnig heimilað að nota grunninn undir loðnu á loðnuvertíðinni 1990. Á árinu 1989 tók Síldarvinnslan á móti 44.369 tonnum af loðnu til mjöl- og lýsisframleiðslu auk þess sem 345 tonn voru fryst.
● Árið 1989 var tekin í notkun ný sprautusöltunarvél og nýtt saltdreifikerfi í saltfiskverkun Síldarvinnslunnar og þótti tilkoma þessa búnaðar mikið framfaraskref. Á árinu voru framleidd 4.405 tonn af saltfiski.
● Árið 1989 framleiddi Síldarvinnslan 279 tonn af skreið og þurrkuðum þorskhausum á Nígeríumarkað. Hafði slík framleiðsla verið veruleg árin á undan en henni lauk að loknu þessu ári.
● Haustið 1989 var reist heljarmikil turnbygging við loðnuverksmiðju Síldarvinnslunnar. Innan þessarar turnbyggingar voru fjórir mjölturnar sem tóku samtals 250 tonn af mjöli. Tilkoma turnisins gerði kleift að vinna við sekkjun á mjöli þegar best hentaði og eins gaf hann möguleika á því að blanda saman mjöli og tryggja þannig jafnari gæði.
● Árið 1989 var fluttur út ísaður bolfiskur til Grimsby með Berki NK eins og gert hafði verið frá árinu 1983. Alls voru 764 tonn flutt út með þeim hætti á árinu.
● Á níunda áratug síðustu aldar var mikil smábátaútgerð frá Neskaupstað. Líklega urðu smábátarnir þó aldrei fleiri en sumarið 1989 en þá voru um 120 bátar gerðir út þaðan. Fiskuðu bátarnir um 4.000 tonn þetta sumar og var aflinn ýmist unninn í hraðfrystihúsi Síldarvinnslunnar eða fluttur út með Berki.