Síldarvinnslan gefur út samfélagsskýrslu fyrir árið 2021 í dag þar sem fjallað er um ófjárhagslega þætti starfseminnar. Meðal annars er ítarleg samantekt á umhverfislegum þáttum í starfseminni. Með gerð skýrslunnar vill Síldarvinnslan stuðla að auknu gagnsæi og bættum vinnubrögðum innan félagsins. Útlit og framsetning á efni er nokkuð breytt frá fyrri skýrslum. Í skýrslunni eru sett fram þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eiga við um áherslur Síldarvinnslunnar í samfélags- og sjálfbærnimálum. Samfélagsskýrslan er liður í að greina frá því sem vel er gert og einnig fjalla um það sem betur má fara.
Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar:
„Árið 2021 var viðburðaríkt í sögu Síldarvinnslunnar. Stjórn félagsins ákvað að skrá bréf þess í Kauphöll með það að markmiði að auka gagnsæi og ná fram dreifðara eignarhaldi. Síldarvinnslan varð þar með þriðja skráða íslenska sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi og jafnframt fyrsta skráða félagið með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Við erum sérstaklega stolt af því.
Síldarvinnslan er kjölfestufyrirtæki í einstökum samfélögum sem hvetur okkur til að vera virkir þátttakendur í samfélagslega mikilvægum verkefnum. Þannig höfum við stutt við æskulýðs- og íþróttastarfsemi, verið bakhjarl björgunarsveita, stutt Sjávarútvegsskóla unga fólksins og styrkt fjölmörg önnur góð málefni á starfssvæðum okkar. Þessu til viðbótar er Síldarvinnslan þátttakandi í metnaðarfullum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum í samvinnu við Matís, menntastofnanir og ýmsa aðra aðila.
Á árinu var tekinn í gagnið búnaður sem gerir okkur kleift að landtengja uppsjávarskip á meðan þau landa í fiskiðjuverið. Með þessu sparast eldsneyti þar sem skipin geta keyrt alfarið á rafmagni meðan þau eru við löndun. Um mitt ár var tilkynnt um stækkun á fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Neskaupstað upp í 2.380 tonna afköst. Hluti af stækkuninni er uppsetning á minni verksmiðju sem getur unnið 380 tonn á sólarhring. Bundnar eru vonir við að litla verksmiðjueiningin skapi möguleika í nýsköpun og geri okkur kleift að nýta betur hráefnið sem kemur að landi.
Síldarvinnslan hefur verið að leita leiða til að kolefnisjafna hluta af starfsemi sinni og í upphafi árs 2022 greindum við frá því að félagið hefði keypt jörðina Fannardal og stefnt væri að því að hefja þar skógrækt. Það er nauðsynlegt fyrir félagið að stíga þau skref á sama tíma og við reynum að ráðast í verkefni til að draga úr losun“.
Samfélagsskýrsluna má nálgast hér
Nánari upplýsingar gefur: Gunnþór B. Ingvason forstjóri