Margrét EA að landa kolmunna í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári GeirssonMargrét EA að landa kolmunna í Neskaupstað í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Margrét EA landaði í gær 1.500 tonnum af kolmunna í Neskaupstað og er það væntanlega síðasti kolmunninn sem íslenskt skip hefur veitt í færeyskri lögsögu að sinni. Uppsjávarskipin fara nú að hyggja að makrílvertíð sem er á næsta leiti og kolmunnaveiðar komast vart á dagskrá á ný fyrr en undir lok ársins.
 
Það sem af er ári hefur Síldarvinnslan tekið á móti rúmlega 71.000 tonnum af kolmunna til vinnslu. Allur kolmunninn fer til mjöl- og lýsisframleiðslu og hefur fiskimjölsverksmiðja fyrirtækisins í Neskaupstað tekið á móti rúmlega 54.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 17.400 tonnum. Kolmunninn er hið ágætasta hráefni til mjöl- og lýsisframleiðslu og hefur gengið mjög vel að vinna hann.
 
Kolmunnaafli Síldarvinnsluskipanna á árinu er sem hér segir:
 
 Beitir NK 16.070 tonn
 Börkur NK 17.497 tonn
 Bjarni Ólafsson AK 14.731 tonn

  

Að auki hafa Margrét EA og Hákon EA landað afla sínum hjá Síldarvinnslunni. Margrét hefur aflað 13.731 tonn og Hákon 11.183 tonn en Hákon er eina kolmunnaskipið sem hefur fryst hluta aflans um borð.
 
Alls hafa íslensk skip veitt 181.761 tonn af kolmunna það sem af er árinu en eftir er að veiða 65.132 tonn.
 
Börkur NK er aflahæsta íslenska kolmunnaskipið á árinu og spurði heimasíðan Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra hvernig veiðarnar hefðu almennt gengið. Sagði hann að ótíð og minni veiði hefðu einkennt þetta árið. „Þegar veitt var vestur af Írlandi var veðurfarið mjög slæmt og það truflaði veiðarnar mikið. Í færeysku lögsögunni hefur minna veiðst en á undanförnum árum. Fiskurinn gekk mjög austarlega og líklega var drjúgur hluti hans Hjaltlands- og Noregsmegin við línuna en það skýrir líklega minni veiði í færeysku lögsögunni,“ segir Hjörvar.