Síldarvinnslan hefur ákveðið að greiða út 100 þúsund króna launauppbót til starfsmanna sem starfa við vinnslu og skrifstofu í landi.  Greiðslan miðast við fullt starf og tekur mið af starfshlutfalli.  Greiðslan verður greidd fyrir jól.

Þrátt fyrir samdrátt í loðnu og síld hefur rekstur félagsins gengið vel á árinu.  Munar þar mikið um stóraukna hlutdeild norsk-íslensku síldarinnar til manneldisvinnslu auk veiða og vinnslu makríls.  Ennfremur hefur rekstur félagsins notið góðs af veikingu krónunnar þó svo að skuldir hafi aukist í sama hlutfalli.

Starfsfólk félagsins bæði til sjós og lands hefur lagt sitt af mörkum við að hámarka verðmæti þess afla sem borist hefur að landi.  Hjá félaginu starfa 120 mans í landi og á skipum félagsins eru 70 manns.

Við göngum bjartsýn inn í nýtt ár þrátt fyrir óvissu með komandi loðnuvertíð.  Starfsfólk okkar þekkir vel þær sveiflur sem eru í aflabrögðum.  Við munum hér eftir sem hingað til standa vaktina og taka því sem að höndum ber með það að markmiði að hámarka virði þess afla sem við fáum, okkur sjálfum og þjóðfélaginu til framdráttar.

Með þessari greiðslu vill Síldarvinnslan hf. þakka starfsfólki sínu fyrir framlag sitt í þágu félagsins á árinu.

Gunnþór Ingvason
Framkvæmdastjóri