Ágætu starfsmenn

Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að greiða út 300 þúsund króna launauppbót 15. desember.  Síldarvinnslan hf. hefur áður greitt starfsmönnum sínum 60 þúsund króna uppbót.  Þannig nemur uppbót umfram samninga 360 þúsund krónum á árinu.

Við erum búin að vinna úr 60 þúsund tonnum af fiski í uppsjávarfrystihúsi  okkar á árinu.  Við höfum tekið nánast alla síld og makríl til manneldisvinnslu í ár.  Um frystigeymslu okkar hafa farið 76 þúsund tonn af afurðum á árinu og til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi hefur verið tekið á móti 154 þúsund tonnum af hráefni.

Starfsfólk Síldarvinnslan hf.
getur verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur við verðmætasköpun úr aflaheimildum okkar.  Við munum greiða ríkissjóði Íslands og sveitafélögum sem við störfum í 2.500.000.000 kr. á árinu 2011 með skattgreiðslum starfsmanna og fyrirtækisins.

Umræðan um fiskveiðistjórnunarkerfið er í undarlegum farvegi, því miður eru engar hugmyndir  frá stjórnvöldum sem eru til þess fallnar að styrkja starfsumhverfi okkar.  Við verðum að treysta því að stjórnvöldum beri gæfa til að snúa af núverandi braut við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og að niðurstaðan verð bætt kerfi sem feli í sér traust starfsumhverfi fyrir sjávarútveg á Íslandi.

Við munum hald ótrauð áfram á sömu braut, þar sem við leitumst við að hámarka virði aflaheimilda okkar á hverjum tíma.  Það er mun skemmtilegra í vinnunni þegar vel tekst til og við verðum alltaf að hafa þá trú að morgundagurinn feli í sér nýja áskorun til betri verka.

Launauppbótin er 300 þúsund krónur á starfsmann sem er starfandi 1. desember, reiknast hlutfall greiðslunnar út frá starfshlutfalli og starfstíma á árinu, greiðslan innifelur orlof.
Launauppbótin verður greidd þann 15. desember n.k. ásamt desemberuppbót.

Gunnþór Ingvason
Framkvæmdastjóri