Síldarvinnslan hf í Neskaupstað (SVN) hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf (BH) í Vestmannaeyjum. Seljandi er hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu. Kaupverð er trúnaðarmál milli kaupanda og seljenda.
Bergur-Huginn gerir út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444. Bæði skipin eru 29 metra löng og voru smíðuð fyrir útgerðina í Póllandi á árunum 2006 og 2007. Hjá félaginu starfa 35 manns. Bergur-Huginn rekur ekki landvinnslu og hefur stærsti hluti aflans farið á markað erlendis.