Hagnaður ársins 2020 nam 39,3 milljónum dala (5,3 ma.kr)

Helstu niðurstöður ársins 2020

  • Rekstrartekjur námu 184,2 milljónum dala (24,9 ma.kr).
  • EBITDA framlegð félagsins var 32,1% og nam 59,1 milljónum dala (8,0 ma.kr).
  • Hagnaður ársins nam 39,3 milljónum dala (5,3 ma.kr).
  • Heildareignir námu 570,1 milljónum dala (72,5 ma.kr).
  • Eigið fé í lok árs var 386,3 milljónir dala (49,1 ma.kr).
  • Eiginfjárhlutfall samstæðunnar 68%.
  • Samfélagsspor fyrirtækisins og starfsmanna þess nám 4,8 milljörðum króna.
  • Afli skipa samstæðunnar var 145 þúsund tonn.
  • Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 123 þúsund tonnum af hráefni.
  • Fiskiðjuverin tóku á móti 51 þúsund tonnum af hráefni til vinnslu.
  • Framundan er skráning félagsins í kauphöll.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2020 námu 184,2 milljónum dala (24,9 ma.kr) samanborið við 190,4 milljónir dala árið áður (23,3 ma.kr).   Rekstrargjöld námu 125,1 milljónum dala (16,9 ma.kr) og lækka um 1,6% á milli ára. EBITDA  framlegð ársins nam 59,1 milljónum dala (8 ma.kr). Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 8,2 milljónir dala (1,1 ma.kr). Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam um 48 milljónum dala (6,5 ma.kr). Reiknaður tekjuskattur var 8,7 milljónir dala (1,2 ma.kr) og var hagnaður ársins því 39,3 milljónir dala (5,3 ma.kr).

Starfsemi

Útgerð félagsins gekk vel á árinu. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 20.753 tonn að verðmæti 6.266 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 124 þúsund tonn að verðmæti 5.290 milljónir króna. Heildaraflaverðmæti skipanna var 11.556 milljónir króna og aflamagn 145 þúsund tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 123.000 tonnum af hráefni á árinu 2020. Framleidd voru 25.700 tonn af mjöli og 6.500 tonn af lýsi og voru verðmæti framleiðslunnar rúmir 8,5 milljarðar króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 48.000 tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru rúm 30.000 tonn. Þar vega makrílafurðir þyngst og síðan síldarafurðir. Verðmæti framleiðslunnar nam 6,6 milljörðum króna.

Fyrirtækið framleiddi 6.476 tonn af bolfiskafurðum á árinu og nam verðmæti framleiðslunnar 3.798 milljónir króna. Fyrirtækið framleiðir bolfiskafurðir í frystihúsinu á Seyðisfirði, Neskaupstað og á frystitogaranum Blængi NK.

Um frystigeymslurnar fóru 43.000 tonn af afurðum á árinu.

Dótturfélagið Laxá framleiddi 10.720 tonn af fóðri á árinu að verðmæti 2.200 milljónir króna.

Samtals nam framleiðsla á afurðum samstæðunnar rúmum 79.000 tonnum á árinu 2020 að verðmæti 21 milljarður króna.  Árið 2020 var gott rekstrarár og þrátt fyrir samdrátt um 6% á framleiddu magni jukust verðmætin um 13%. Veðmætaukningin má að hluta rekja til veikingar krónunnar en meðalgengi USD var 9,3% veikara á móti íslensku krónunni á árinu 2020.

Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 338 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru tæpar 4.737 milljónir króna á árinu 2020.

Samfélagsspor

Á árinu 2020 greiddu Síldarvinnslan og starfsmenn 4,8 milljarða króna til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur var 1.119 milljónir króna og veiðigjöld voru 294 milljónir króna. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu tæpar 1.524 milljónir króna í staðgreiðslu af launum. Þá voru kolefnisgjöld 189 milljónir króna. Nánar er fjallað um samfélagsspor fyrirtækisins í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunar sem  verður aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Fjárfestingahreyfingar

Fjárfestingar félagsins námu um 16,4 milljónum dala (2.221 ma.kr) á árinu og sala fastafjármuna á móti nam 6,2 milljónum dala (835 ma.kr)  þannig að nettó fjárfestahreyfingar námu  10,2 milljón dala (1.386 ma.kr).  Helstu fjárfestingarnar voru nýsmíði á uppsjávarskipinu Berki NK 122. Skipið er smíðað hjá Karstensen skípasmíðastöðinni í Danmörku og er væntanlegt í lok maí.  Skipið er 89 metrar á lengd, breiddin er 16,6 metrar og það er 4.100 brúttótonn. Einnig var fjárfest í búnaði í uppsjávarvinnslunni í Neskaupsstað. Dótturfélag Síldarvinnslunnar Bergur-Huginn skrifaði undir kaup á öllu hlutafé í Bergi ehf. sem gerir út skipið Berg VE og eru aflaheimildir Bergs 1.530 þorskígildistonn. Þá seldi félagið togarann Smáey (áður Vestmannaey) á árinu.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2020 voru bókfærðar á 570,1 milljónir dala (72,5 ma.kr). Skuldir samstæðunnar námu samtals 183,9 milljónum dala (23,4 ma.kr). Eigið fé samstæðunnar í árslok var 386,3 milljónir dollara (49,1 ma. kr). Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 68%.

Ársreikningur samþykktur

Ársreikningur Síldarvinnslunnar hf. var samþykktur á stjórnarfundi 14. apríl 2021. Uppgjörsmynt félagsins er bandaríkjadollar, tölur um rekstur og sjóðstreymi eru mv. meðalgengi bandaríkjadollars á árinu 2020 og tölur úr efnahag eru mv. lokagengi ársins. Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf. þann 26. mars sl. ákvað að færa hlutafé félagsins í SVN eignafélagi, sem fer með eignarhlut í Sjóvá-Almennar hf., yfir til hluthafa félagsins og hefur sá tilflutningur farið fram. Tillaga stjórnar fyrir komandi aðalfund er að hagnaður ársins verði fluttur á milli ára.

Unnið er að skráningu félagsins i Kauphöll og er stefnt er að skráningu í maí mánuði. Vinnan hefur gengið vel en samhliða skráningunni voru teknir upp IFRS alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og er reikningur 2020 skv. þeim.

Gunnþór Ingvason forstjóri:

,,Ég er ánægður með árangur Síldarvinnslunnar á krefjandi ári. Reksturinn var traustur og fjárhagsstaða félagsins sterk. Síldarvinnslan er útflutningsfyrirtæki sem að starfar á alþjóðlegum mörkuðum og hafði Covid-19 heimsfaraldurinn áhrif á starfsemi félagsins árið 2020. Þurftum við að aðlaga veiðar, framleiðslu og sölu afurða að breyttum veruleika með lokunum landamæra og takmörkunum á ferðalögum víðsvegar um heiminn. Starfsfólk félagsins sýndi framúrskarandi aðlögunarhæfni og samstöðu á þessum erfiðu tímum. Ekki kom til lokunar í vinnslum eða röskunar á útgerð vegna áhrifa af Covid-19. Annað árið í röð veiddist engin loðna með tilheyrandi tekjutapi fyrir félagið. Áhersla Síldarvinnslunnar síðastliðinn áratug hefur verið að fjárfesta í bolfiskheimildum og efla þann hluta starfsemi félagsins. Með því hefur tekist að verja afkomu- og tekjugrundvöll félagsins þegar að sveiflur í uppsjávarheimildum gætir líkt og gerst hefur í tilfelli loðnunnar síðastliðinn tvö rekstrarár. Fjárfestingar í nýjum skipakosti og innviðum síðustu ára hafa skilað sér í aukinni hagkvæmni í rekstri. Á árinu 2020 staðfesti íslenskur sjávarútvegur mikilvægi sitt sem ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar og undirstaða velferðar. Við hjá Síldarvinnslunni erum stolt af okkar framlagi til íslenskrar verðmætasköpunnar. Fyrirhuguð er skráning á hlutabréfum Síldarvinnslunar í Kauphöll sem markar tímamót í starfsemi félagsins, eflir félagið og opnar fyrir fjárfestum. Nýafstaðin loðnuvertíð var vel heppnuð þó hún væri ekki stór í sögulegu samhengi.  Veiðar og vinnsla gengu vel, allt var unnið til manneldis.  Ljóst er að fjárfestingar síðustu ára í skipum og manneldisvinnslu hafi tryggt hámarks verðmætasköpun.“

Nánari upplýsingar veitir

Gunnþór Ingvason
forstjóri Síldarvinnslunnar