Í umfjöllun að undanförnu hafa komið fram mjög villandi fullyrðingar um tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja, þar sem viðkomandi aðilar hafa vísvitandi reynt að gera eignarhald á Síldarvinnslunni hf. tortryggilegt.

Staðreyndir málsins eru þessar: 

Hluthafar í Síldarvinnslunni eru alls 292. Þar af eiga 20 stærstu hluthafarnir 99,37% hlutafjárins og 5 stærstu eiga 96,75%. Samherji er stærsti einstaki hluthafinn og er eignarhlutur félagsins 44,64%. 

Stjórnun Síldarvinnslunnar er með hefðbundnum hætti og kýs aðalfundur félagsins þriggja manna stjórn. Síðastliðin 10 ár hefur stjórnin verið kjörin einróma og á aðalfundunum hefur full eining ríkt um stefnu og starfsemi félagsins. Á þrjá síðustu aðalfundi hafa mætt fulltrúar handhafa 97-99% hlutafjár.

Núverandi stjórn er skipuð Þorsteini Má Baldvinssyni frá Samherja (44,64% hlutafjár), Inga Jóhanni Guðmundssyni frá Gjögri (34,23% hlutafjár) og Freysteini Bjarnasyni frá Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað (10,97% hlutafjár). Varamaður er Halldór Jónasson frá Eignarhaldsfélaginu Snæfugli (5,29% hlutafjár). Þorsteinn Már er núverandi stjórnarformaður. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði og í öllum tilvikum geta tveir stjórnarmenn myndað meirihluta.